Hætt er við að margir myndu reka upp stór augu að heimsækja til dæmis Vopnafjörð á þjóðhátíðardegi Íslendinga og sjá þar jafnmarga flagga færeyska fánanum og þeim íslenska.

Sekkjapípur og skotapils eru meðal aðal skemmtiatriða á Bastillu-deginum í bænum Aubigny-sur-Nere.
Sekkjapípur og skotapils eru meðal aðal skemmtiatriða á Bastillu-deginum í bænum Aubigny-sur-Nere. Mynd Cekispass

Á slíku eru reyndar litlar sem engar líkur en villist fólk inn í smábæinn Aubigny-sur-Nère í Frakklandi á Bastilludeginum franska blasir við merkileg sjón. Þar blakta við hlið franska fánans líka fáni Skotlands, fjöldi fólks valsar um í skotapilsum og eitt helsta skemmtiatriðið á dagskránni er skrúðganga og tónleikar með sekkjapípusveit.

Það eru svona atvik sem oft gera ferðalög að hreinni unun. Því ferðist fólk um lönd og sveitir án þess að skipuleggja allt niður í smáatriði eru mun meiri líkur á að lenda í einhverju óvæntu og skemmtilegu.

Í Aubigny-sur-Nère er verið að minnast þess tíma þegar Skotar börðust í Frakklandi við hlið heimamanna gegn hinum hötuðu Englendingum á miðöldum þegar sem allra stirðast var milli Englendinga og Skota. Og grjótharðir Skotarnir stóðu sig svo vel að eftir er munað.

Engir bardagar áttu sér stað hér í Aubigny-sur-Nère en þetta er eini staðurinn sem fagnar þessum aldagamla samstarfi Frakka og Skota á sjálfum þjóðhátíðardeginum og skapar bænum mikla sérstöðu. Varla að undra að þetta er einn helsti áfangastaður Skota í Frakklandi enn þann dag í dag og við hin njótum góðs af.