Með tilkomu Wizz Air býðst landanum nokkuð reglulega flugfeðir til Búdapest í Ungverjalandi. Það er jákvætt enda borgin falleg og verðlag lágt sem kemur á móti því að smáglæpamenn og svikahrappar eru hér fjölmennir.

Brezhnev slakur á brókinni. Ein af kostulegum gripum sem finnast í Szoborpark safninu í Búdapest
Brezhnev slakur á brókinni. Einn af kostulegum gripum sem finnast í Szoborpark safninu í Búdapest

Þó skal til bókar fært að í þremur heimsóknum til Búdapest hefur ekkert okkar hjá Fararheill lent í neinu þó vissulega höfum við heyrt slæmar sögur af Íslendingum sem plataðir voru upp úr skónum.

Hvað sem því líður er eitt safn hér í grennd sem er algjörlega ómissandi að eyða tíma í. Það er Szoborpark eða Memento Park á engilsaxneskunni.

Þar hafa uppátækjasamir safnað saman fjölmörgum kostulegum minjum og minnisvörðum frá tímum Kalda stríðsins þegar Ungverjar voru kyrfilega um áratuga skeið undir hæl yfirvalda í Moskvu.

Og þvílíkir munir. Ekki bara risastytturnar til merkis um hetjur verkalýðsins og til heiðurs fyrrum móðurlandinu heldur og ekki leiðinlegt að fletta áróðursritum, sjá áróðursplaggöt og klassíska Moskvíta og Trabanta.

Sovétmenn höfðu ekki lítið dálæti á styttum og táknum hvers kyns til að færa kommúnistaandann í brjóst fólks. Mynd Jodle
Sovétmenn höfðu ekki lítið dálæti á styttum og táknum hvers kyns til að færa kommúnistaandann í brjóst fólks. Mynd Jodle

Safnið er í rúmlega 20 mínútna akstursfjarlægð frá borginni. Finndu strætisvagn 150 sem fer alla leið og stoppar á ýmsum athyglisverðum stöðum á leiðinni ef því er að skipta.

Szaborpark er aðeins einn af mörgum stöðum sem við mælum með í vegvísi Fararheill um Búdapest.