Rösklega fimm metrar á lengd og tæpir þrír metrar á breidd. Svo stór er minnsta kapella heims sem finnst í afvikinni götu undir klettanös í borginni Funchal, höfuðborg Madeira.

Kapellan í öllu sínu veldi. Byggingin til hægri er íbúðarhús. Mynd g6tema

Kapellan í öllu sínu veldi. Byggingin til hægri er íbúðarhús. Mynd g6tema

Svo skrýtið sem það nú er þá er ekki minna merkilegt að skoða þessa agnarsmáu kapellu en risakirkjur þær sem finnast alls staðar í veröldinni. Það tekur bara skemmri tíma.

Ekki síður merkilegt að um þessa kapellu, Capela das Almas Pobres eða Kapellu hinna fátæku sála, finnst vart stafur í ferðabókum um Madeira né heldur kynningarefni borgaryfirvalda í Funchal. Það er reyndar ekki nema fólk glenni augun á lítinn platta við kapelludyrnar sem staðhæft er að hér sé um minnstu kapellu heims að ræða. En til þess þarf auðvitað kunnáttu í portúgölsku líka.

Hvort sem það er rétt eður ei er þetta merkileg bygging. Kapellan var byggð árið 1781 og það til minningar um mann sem allt sitt líf gaf fátækum af mat sínum og peningum. Hinir fátæku guldu hugulsemina með því að vega manninn vegna afbrýðissemi síðar meir.

Kapellan er reyndar ekki opin dags daglega en þegar svo er opnast dyrnar nánast beint upp að örlitlu altari og og þar fyrir ofan mynd af frelsara jarðar að bjarga hinum vonlausu sálum. Glæsileg altarismynd þó komin sé til ára sinna og farin að láta á sjá. Hér líka bænabaukur fyrir þá sem heita vilja á hina guðlegu. Þess utan er hér oggulítið herbergi til vinstri sem ætlað var þeim er erfitt áttu með gang.

Sem fyrr segir er kapellan ekki auðfundin. Hún stendur við Travessa das Capuchinas götuna sem er skammt frá þekktu klaustri hér í borg: Convento de Santa Clara.

Aðeins einn staður af mörgum sem við bendum þér á í vegvísi okkar um Funchal 🙂