L íklega er borgin Dubai í Sameinaða arabíska furstadæminu ekki á lista margra Íslendinga yfir ómissandi staði að sjá á lífsleiðinni enda þangað æði langt að fara.

Þó borgin sé sálarlaus að mestu og álíka yfirborðskennd og „þjónusta“ í verslunum Krónunnar er það sannarlega þess virði að heimsækja borgina þó ekki sé nema til að sjá hæsta turn heims í nærmynd.

Burj Khalifa þýðir Khalifa-turninn á arabísku og er enn hæsta bygging heims. Turninn sérstaklega byggður til að vera hærri en fyrrverandi hæstu turnar heims: Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu. Þetta er, með öðrum orðum, algjör montturn.

Khalifa er sjón að sjá þó reyndar það megi segja um Dúbai alla. Glæsileikinn er ekki minni innandyra en utan.

Khalifa er sjón að sjá þó reyndar það megi segja um Dúbai alla. Glæsileikinn er ekki minni innandyra en utan.

Það reyndar svo merkilegt að aðkomufólk býst við að sjá turn þennan úr fjarska enda litlir 828 metrar á hæðina. Svo er þó alls ekki vegna þess að Dubai er vægast sagt troðin af skýjakljúfum og við akstur um borgina glittir aðeins örfá skipti í Khalifa turninn. Margir aðrir turnar álíka stórkostlegir þó minni séu. Aðeins þarf einn rúnt um Sheikh Zayed breiðgötuna til að gjörbreyta allri heimsmynd manns. Turnar eftir turna svo kostulegir að ekkert neins staðar í veröldinni jafnast á við íburðinn. Dýrar ítalskar flísar í hólf og gólf og utanum allt klabbið, gull og látún á hurðum og klósettum og lágmark 12 öryggisverðir við störf í hverri og einni byggingunni alla daga ársins.

Færri vita kannski að Burj Khalifa er hótel að hluta og rekið af tískukeðjunni Armani. Eiga Ítalarnir fimmtán fyrstu hæðirnar í byggingunni. Sé einhver að hugsa sér gott til glóðar skal bent á að kostnaður við gistingu á þessum ágæta stað er svo mikill að Armani gefur það ekki upp á netinu. Ástæðan sú að þurfi fólk að vita kostnaðinn þá er það of blankt til að gista þar.

Þar fyrir ofan eru skrifstofur margra af ríkari fyrirtækjum heims. Efstu hæðirnar á svo fyrirtækið sem reisti bygginguna, Emaar Properties. Forstjóri þess á efstu hæðina út af fyrir sig og þangað fer sérlyfta sem sögð er hraðasta lyfta heims. Aðeins tekur 90 sekúndur að fara með henni á toppinn.

Ferðamönnum á að gefast tækifæri að skoða útsýnið frá 124 hæð í byggingunni en aðgöngumiðinn kostar litlar tólf þúsund krónur sé hann keyptur á staðnum. Hægt er spara átta þúsund á því að kaupa miða fyrirfram á netinu á heimasíðu turnsins hér.

Eigi fólk aðeins fleiri peninga í buddu er líka hægt að heimsækja hæsta einkaklúbb heims á hæðum 152-154. Þar hægt að dúllast í Lazyboy og hengirúmum með dýran bar sér við hlið fyrir aðeins 26 þúsund krónur á mann.

Enginn þarf þó að örvænta því byggingin sjálf, þúsundir listaverka bæði úti við og inni í byggingunni plús stórglæsilegir fossar og vatnsgarður í þokkabót nægja alveg til að fullnægja flestum ferðamönnum. Þá er þarna líka dýra- og sædýrasafn sem einnig er engu minna en stórkostlegt að sjá og skoða. Svo ekki sé minnst á Dubai Mall sem er hér líka á jarðhæð og er vitaskuld stærsta verslunarmiðstöð heims. Verðlagning miðast þó lítið við krónueigendur og enginn gerir þar góð kaup.

Að turninum er auðveldast að komast með næsta leigubíl en fjöldi fyrirtækja býður lengri eða skemmri ferðir um borgina með litlum rútum. Allt það helsta í borginni allri að Burj Khalifa meðtöldum má skoða á einum degi með sæmilegu móti.

Þannig er þjóðráð sé ferðinni heitið til Asíulanda að millilenda í Dubai og eyða þar dagsstund eða svo. Borgin sannarlega mikilfengleg fyrsta sólarhringinn eða svo en flottheitin missa fljótt sjarmann enda er það fólk og líf sem gerir borgir skemmtilegar en ekki háhýsi og blokkir. Lesa má allt um Dúbai hér.