E falítið eru þeir margir Íslendingarnir sem eiga skáldsögu eða tvær hálfskrifaðar og rykfallnar ofan í skúffu eftir ítrekaðar tilraunir til að komast á blað. Skáldagáfan ekki allra en stundum þarf aðeins að breyta um umhverfi til að öll púslin falli á sinn stað við skriftir. Þá gæti París verið málið og þá sérstaklega stopp á þessum tveimur kaffihúsum.

Gömul kaffihús ætíð góð heimsóknar og ekki skemmir ef þau eru sögufræg líka. Mynd Maqroll

Gömul kaffihús ætíð góð heimsóknar og ekki skemmir ef þau eru sögufræg líka. Mynd Maqroll

Það er reyndar að bera í bakkafullan lækinn að mæla með ákveðnum kaffihúsum í París. Þar eru ekki nema þúsundir indælla slíkra staða og sitt sýnist hverjum hvað flokkast sem gott kaffihús og hvað ekki.

En tvö kaffihús borgarinnar eru sannarlega mun þekktari en önnur og bæði að mestu leyti sökum þess að fyrr á árum héldu hér til nokkur stórmenni bókmenntanna og gott ef einhverjar hugmyndir og jafnvel skriftir áttu sér ekki stað þar líka. Staðirnir eru nánast hlið við hlið í borginni.

Hið fyrra er Les Deux Magots í Saint Germain des Prés en nafnið merkir tvær kínverskar fígúrur og vísar til verslunar sem hér var til húsa áður en kaffihúsið tók til starfa. Það æði langt síðan því Les Deux Magots hóf starfsemi árið 1812. Sjötíu árum síðar varð þetta kaffihús eitt hið fyrsta í París til að veita áfengi fyrir þá sem lítið voru fyrir kaffið. Það var þó ekki fyrr en 1933 sem staðurinn fann sinn samastað þegar tekið var upp á því að veita vegleg verðlaun fyrir bókmenntir. Þau verðlaun enn veitt í dag. Upp frá þessu fóru að venja komur sínar hingað listamenn af ýmsum toga og þar á meðal nokkrir sem enn eru á stalli sem fyrsta flokks höfundar. Fólk á borð við Jean Paul Sartre, Pablo Picasso, Albert Camus, Ernest Hemingway og ekki síst André Breton sem oft er kallaður faðir súrrealisma.

Hinn seinni er Café de Flore sem einnig er staðsett í Saint Germain des Prés. Það hefur á seinni árum orðið enn vinsælla en Les Deux Magots þó ekki hafi það notið viðlíka vinsælda fram að því. Hér líka gerði Hemingway sig heimakominn og það oftar en ekki vel í glasi. Sartre, Picasso og Camus voru heldur ekkert feimnir að kíkja hingað og þjóra sömuleiðis. Þá á Zhou Enlai sem um tíma var hæstráðandi í Kína að hafa skipulagt valdarán sín heimavið hér á Café de Flore þegar hann var hér við nám. Sögur segja þó að Hemingway að minnsta kosti hafi raunverulega setið hér við skriftir meðan hann lét áfengið duga á Les Deux Magots. Til marks um keppni þessara tveggja kaffihúsa má nefna að Café de Flora veitir einnig sérstök bókmenntaverðlaun sem einnig þykja eftirsóknarverð.

Það er aldeilis ágætt að kíkja inn á báða staði enda bæði kaffið og meðlætið fyrsta flokks þó reyndar reikningurinn taki mið af því. Óhætt er samt að hafa væntingar í lágmarki því báðir staðir eru vel troðnir alla jafna og oftar en ekki af ferðafólki. Sennilega nokkuð fjarri stöðum sem Picasso, Hemingway, Sartre og Camus myndu hanga á í dag.