V elflestir Frónbúar láta sig dreyma um sól og hita þegar líða fer á íslenska veturinn og margir sjá þá í hillingum ferðalög til heitari landa heims. En eins og velflestir hafa einnig upplifað fer mikill hiti ekki ýkja vel í Íslendinga til lengri tíma og landinn saknar vindbarins klakans fljótt við 30 til 40 stiga hita og sól dag eftir dag.

Pant ekki njóta hita og sólar í El Azizya í Líbýu

Pant ekki njóta hita og sólar í El Azizya í Líbýu

Ekki síst á það við í þeim löndum þar sem segja má að árstíðirnar séu haust, vetur, vor og helvíti.

Hér eru þeir fimm staðir sem eiga hitamet í heimsálfunum fimm. Allt eru þetta staðir þar sem svitaperlur birtast á enni við það eitt að hugsa.

Eyjaálfa:

Sennilega er hægt að steikja sér egg í bænum Oodnadatta í suðurhluta Ástralíu án þess að nota til þess pönnu. Þar hefur hitastig hæst mælst 50,5 gráður árið 1963.

S.Ameríka:

Þorpið Rivadavia í Argentínu er ekki þekkt fyrir neitt sérstakt ef frá er talinn mesti hiti sem mælst hefur í allri Suður-Ameríku. Litlar 48,8 gráður hefur hitinn mælst þar og það oftar en einu sinni.

Asía:

Örfáum kílómetrum frá Jórdan ánni í Tirat Tsvi í Ísrael hefur veðurstofa þess lands mælt hita upp á 53,8 gráður. Það er varla það sem Íslendingar eiga við þegar talað er um einn góðan veðurdag.

N.Ameríka:

Sennilega er vandfundinn staður sem ber meira nafn með rentu en Dauðadalurinn, Death Valley, í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar lifir fátt og ástæðan sú að hitar hér geta náð 56,6 stigum og eru reglulega kringum 50 gráðurnar. Það selsíus en ekki fahrenheit.

Evrópa:

Það er á sléttum Andalúsíu héraðs á Spáni þar sem hitamet Evrópu var sett í denn og stendur enn. Í borginni Sevilla hefur hitinn í ágústmánuði náð sléttum 50 gráðum þegar verst lét.

Afríka:

Það eru miklar hetjur sem geta lyft litlafingri í 57,7 gráðu hita en það er methitastigið í Afríku. Nánar tiltekið í smáþorpinu El Azizya í klukkustundar fjarlægð frá Trípolí í Líbýu.