Þ að má leita mjög lengi að fyrirtaks velli og golfhóteli nánast inni í miðri borg. Slíkt heillar eðlilega þá sem vilja spila golf út í eitt en einnig njóta þess besta í mat og verslun án þess að þurfa að leigja bíl og aka vegalengdir. Hotel Alicante Golf í Alicante á Spáni býður akkúrat upp á slíkt.

Útsýn af hótelsvölum yfir 10. og 18. braut. Völlurinn tipp topp en hótelið töluvert síðra.

Fjölmargir Íslendingar þekkja bæði hótelið og völlinn enda lengi verið boðið upp á dvöl þar gegnum innlendar ferðaskrifstofur. Svo mjög hefur hótelið og völlurinn verið vel sóttur af Íslendingum að íslenski fáninn er það fyrsta sem blasir við á fyrsta teig. Litla íslenska hjartað tekur extra kipp við það og tár lekur niður kinn fyrir þá viðkvæmustu.

Þetta auðvitað hreint fyrirtak fyrir bæði lata kylfinga og eldri kylfinga. Fyrsti teigur í fimm mínútna fjarlægð frá morgunverðarhlaðborðinu og allbærilegt sundlaugarsvæði plús sæmilega ódýrt áfengi á barnum.

Fyrir lata kylfinga eða eldri kylfinga er fátt betra en gista á slíku hóteli. Ekki slæmt heldur að komist er í príma spænskar verslanir og veitingastaði í Alicante á 20 mínútum sléttum með léttlest sem stoppar við hlið hótelsins atarna.

Allt lítur þetta flott út. En oft er flagð undir fögru.

VÖLLURINN

Golfvöllurinn sem hér um ræðir er mjög góður og fær 8 stjörnur af 10 mögulegum. Feitasti plúsinn auðvitað að hann er við hótelið og vallargjöldum þokkalega stillt í hóf. Hægt er að spila átján holur eftir hádegið flesta daga með bíl til umráða fyrir 50 evrur, 6.100 krónur eða svo þegar þetta er skrifað. Berðu það saman við 10.300 krónur sem það kostar að spila hring í Grafarholtinu án bíls. Sem sagt helmingi ódýrara en hjá Golfklúbbi Reykjavíkur ef spilað er eftir hádegi og veðrið yfirleitt svona fimmfalt betra.

Næstfeitasti plúsinn við völlinn er að hann er feykiskemmtilegur en reyndar þokkalega erfiður um leið. Hannaður af Seve Ballesteros og sá sá sér leik á borði og plantaði sinni eigin villu á besta stað við völlinn.

Völlurinn bæði vel hirtur og starfsfólk hér allt að gera sitt besta og óhætt að gefa starfsfólkinu tíu í einkunn. Hvergi hægt að setja út á nokkurn hlut og hvort sem fólk getur eitthvað í golfi eður ei, þá er þessi völlur eftirminnilegur fyrir margra hluta sakir. Ekki hvað síst vegna þess að á 16. braut liggur leiðin að hluta til yfir einhverjar elstu fornminjar sem fyrirfinnast í Alicante-héraði. Þá er dýralíf hér mikið sem kemur mjög gleðilega á óvart við golfvöll inn í miðri borg eða því sem næst.

HÓTELIÐ

Því miður er Hotel Alicante Golf fjarri því á pari við fínan völlinn. Fyrir 40 árum var hótelið eflaust algjörlega magnað en síðan hefur leiðin legið niður á við. Starfsfólk verið skorið vel við nögl frá upphafi og margir þeir sem þar starfa ekki starfi sínu vaxnir. Bros jafn fátíð og fossar á Maldíveyjum og sumt starfsfólk vissi ekki hvort sundlaug hótelsins væri upphituð eða ekki. Ekki er svarið.

Ekki slæmt prógramm. En myndir frá hótelum eru oft töluvert betri en raunveruleikinn segir til um. Mynd Husa Alicante Golf.

Nokkur dæmi um depurðina: lausar flísar á baðherbergjum, herbergiskort virka í 60 prósent tilfella, mismunandi verð á sama drykk á barnum, svalahurðum að íbúðum ítrekað ekki læst eftir þrif, fimmta flokks kaffi í boði í morguverðarhlaðborðinu og plastdúkur yfir biluðu almenningsklósetti vikum saman.

NIÐURSTAÐA

Hotel Alicante Golf er sagt fjögurra stjörnu en rétt slefar í þrjár stjörnur að okkar mati. Sök sér að einn og annar hlutur virki ekki sem skyldi, en gleðisnautt staffið bætir ekkert úr skák. Þá er líka bölvuð synd að hér virðist enginn gista sem ekki er kominn á ellilífeyrisaldur. Hér er leitun að yngra fólki en sextugu sem ekki er lagst til svefns skömmu eftir kvöldverð. Ekki svo að skilja að það sé endilega neikvætt að eldra fólk fjölmenni á einn og sama staðinn en það er klárlega neikvætt að „fjögurra“ stjörnu hótel á toppstað í vinsælli borg á Spáni trekki fáa nema ellilífeyrisþega.

Golfið klárlega þess virði og hótelið er allt í lagi í besta falli. Óhætt að gista hér ef þú gerir ekki of miklar kröfur.