Þ að er næsta ómögulegt að gera upp á milli grísku eyjanna. Þær eru sannast sagna hver annarri fallegri. En það er engin tilviljun að ein sú vinsælasta ár eftir ár er hin stórfenglega Santorini.

Ekki dónaleg útsýn til hafs. Veröndin Mystique hótelið á Santorini. Mynd Mystique
Santorini tilheyrir Cyclades eyjaklasanum og er frábrugðin flestum öðrum hinna tvö þúsund eyja við Grikkland að því leytinu að eyjan tók miklum og alvarlegum breytingum í miklu eldgosi sem hér varð fyrir nokkur þúsund árum. Það gos gjörbreytti öllu hér, braut niður stóran hluta eyjunnar og skapaði mikið lón sem þykir nú til dags mjög heillandi.
En eldvirkni skóp ekki aðeins fallegt lónið heldur og skar eyjuna í sundur með þeim afleiðingum að þverhníptir klettar prýða nú stóran hluta eyjunnar. Þær aðstæður urðu til þess að íbúar hér margir neyddust til að byggja hús sín í snarbröttum hlíðunum enda ekki annað í boði.

Lúxus á lúxus ofan en með grísku sniði samt. Mynd Adonis
Santorini hefur hin síðari ár orðið æ vinsælli hjá ríkari ferðamönnum með þeim afleiðingum að lúxushótelum hér fjölgar nokkuð reglulega. Ekkert gefið að gista á þeim en þó má finna hér svefnstað niður undir 30 þúsund á nótt sé vel leitað.
Fjögur hótel sem bæði bjóða toppþjónustu en jafnframt óviðjafnanlegt útsýni til hafs eru Mystique, Katikies, Kirini og Andonis Boutique Hotel. Öll fjögur eru í bænum Oia sem er annar tveggja bæja sem standa að mestu í klettahömrum.
Ritstjórn hefur fundið gistingu í þessum hótelum niður í 22 þúsund krónur en 30 til 40 þúsund per nótt er þó algengara verð. Kannaðu málið hér að neðan.