Velflestar rómantískar hugmyndir um Feneyjar hverfa yfirleitt eins og dögg fyrir sólu þegar komið er á staðinn og greiða þarf fyrir kaffibolla, gondólaferð eða aðgang að sjarmerandi safni. Feneyjar er nefninlega fokdýr borg að dvelja í og peningar hverfa hraðar en hjá Kaupþingi við Hrunið.

Glerlist Murano er heimsþekkt og víða er lítið mál að finna glerlistamann að störfum og það stundum utandyra. Mynd Marcus Kesler

Glerlist Murano er heimsþekkt og víða er lítið mál að finna glerlistamann að störfum og það stundum utandyra. Mynd Marcus Kesler

En sem betur fer er hægt að njóta örfárra staða og hluta í þessari hálfsokknu borg án þess að klára ævisparnaðinn í einni svipan. Hér eru fimm þeirra:

♥  Listahátíðin Feneyjatvíæringurinn, La Biennale di Venezia, er ein stærsta listahátíð heims og fer fram á tveggja ára fresti í borginni. Þó greiða þurfi inn á aðalatriði hennar eru fjölmargir listamenn að störfum meðan á henni stendur og þeirra verk má yfirleitt skoða án þess að greiða fyrir. Sjá hér.

♥  Markúsarkirkjan er fallegasta kirkja Feneyja og þótt víðar sé leitað. Hana kostar ekkert að skoða en búast má við mannfjölda. Sjá hér.

♥  San Vidal er kirkja við Accademia brúnna sem búið er að breyta í tónleikasal. Þar kostar ekkert að fara inn yfir hádaginn og á stundum eru söng- eða leikhópar þar að störfum. Sjá hér.

♥  Burano er ein eyjanna úti á Feneyjalóni en sá staður er heimsfrægur fyrir ótrúlega litagleði íbúanna sem keppast við að mála hús sín í misfallegum en áberandi litum. Greiða þarf fyrir farið yfir lónið en sjónarspilið er ókeypis.

♥  Önnur eyja í Feneyjalóninu er Murano sem heimsþekkt er líka vegna glergerðar á heimsmælikvarða. Vinnustofur glerlistamannanna eru opnar og ókeypis en greiða verður fyrir farið yfir lónið.