V el má vera að þú kannist ekki við nafnið Neuschwanstein í fljótu bragði. En enginn sem pikkar upp þýskan túristabækling kemst hjá því að læra um staðinn.

Neuschwanstein í vetrarbúningi. Mynd ksov1332

Neuschwanstein heitir kastali einn stór og mikill sem þykir og einn sá allra fallegasti sem enn stendur í veröldinni. Hann stendur hátt á hæð einni skammt frá bænum Hohenschwangau í Bavaria-héraði Þýskalands og hann er einn allra þekktasti ferðamannastaður landsins. Árið 2017 heimsóttu jafnmargir þennan eina kastala og heimsóttu allt Ísland.

Þú þekkir hann líklega af myndum jafnvel þó nafnið kveiki engar perur. Neuschwanstein er svo ótrúlega fallegur og margir Þjóðverjar kalla hann Disneyworld Þýskalands og til eru þeir sem segja að einkennismerki Disney, Magic Castle, sæki útlit sitt til Neuschwanstein.

Og sami staður að sumarlagi. Mynd ladyboss Asia

Kastalanum er afar vel við haldið en byggingu hans lauk árið 1892. Hægt er að skoða allan kastalann eins og hann leggur sig og hér meira að segja hægt að leigja veislusali ef nægur peningur er í buddunni.

En það er ýmislegt annað merkilegt við Neuschwanstein:

♥  Eigandinn náði aldrei að njóta til fulls  Lúðvík II konungur Bavaría lét reisa Neuschwanstein á þessum stað enda hafði karl eytt hér hluta barnæsku sinnar og átti héðan góðar minningar. Lúðvík flutti vissulega inn árið 1883 en þá var byggingin varla hálfkláruð. Karl yfirgaf heiminn þremur árum síðar og sá kastalann aldrei í þeirri mynd sem við sjáum.

♥♥  Skreytingar kastalans voru tileinkaðar tónskáldinu Wagner  Lúðvík kóngur var mikill vinur hins dáða tónskálds Richard Wagner sem þá þegar var stórvesír í tónlistarheiminum. Gaf hann smiðum þeim fyrirmæli að allar skreytingar á kastalanum tækju mið af óperum Wagners. Sama gildir um öll málverk sem hér héngu og hanga að hluta enn. Þá er nafnið sjálft einnig úr óperu tónskáldsins.

♥♥♥  Viðhald er eilífðarverkefni  Kastalinn er byggður að stærstum hluta úr kalksteini sem lætur mjög á sjá í rysjóttu veðurfari við rætum Alpafjalla. Ekki síður alvarlegt að það kvarnast jafnt og þétt úr kletti þeim er kastalinn stendur á og alls sjö sinnum hefur þurft að steypa stóra hluta hans til að koma í veg fyrir hrun.

♥♥♥♥  Tækniundur  Í lok nítjándu aldar var það alls ekki svo að rafmagn, hiti eða rennandi vatn væri raunin í híbýlum fólks. Gilti þá einu hvort um konunglegan íverustað var að ræða eður ei. Fjarri því reyndar. Slíkt var algjört tækniundur á þessum tíma. En Lúlli kóngur var framtíðarmaður og því var rafmagn í hluta Neuschwanstein, heitt og kalt rennandi vatn og miðstöðvarkerfi í þokkabót. Þessu öllu gerð góð skil ef fólk tekur túr hér með leiðsögn.

♥♥♥♥♥  Athvarfið sem ekki varð  Lúlli kóngur lét ekki byggja Neuschwanstein sem formlega konungshöll sína. Kastalinn átti aðeins að vera svona nett sumarhús og athvarf fyrir karlinn og fjölskylduna svona þegar álagið varð of mikið. Með það í huga hlýtur Lúlli að hafa snúið sér við í gröfinni nokkrum sinnum því fjöldinn sem hingað sækir árlega er vægast sagt yfirþyrmandi. Allt upp í sjö þúsund gestir stoppa hér daglega á annatímum að sumarlagi og 1,5 til 1,6 milljón manns heimsækja staðinn ár hvert.

Sem auðvitað merkir að þú ættir að miða heimsókn hingað við vor eða haust þegar ekki er hér spígsporað án þess að rekast utan í annað ferðafólk. En jafnvel þó að sé raunin er heimsóknin þess virði 🙂