Þ að er stórundarlegt fólk sem ekki kann við sig í Barcelóna á Spáni enda án vafa ein allra skemmtilegasta borg Evrópu og þótt víðar væri leitað.

Ýmislegt meira merkilegt við Barcelóna en virðist við fyrstu sýn

Ýmislegt meira merkilegt við Barcelóna en virðist við fyrstu sýn

Borgin er fræg fyrir margt. Sagrada kirkjan stórkostlega, frábært knattspyrnuliðið, ótrúlega fínar strendur fyrir utan fyrirtaks mat og menningu svo fátt sé nefnt.

En eins og allar góðar borgir lumar Barcelóna á sínum leyndarmálum sem eru vissulega misvel geymd.

Vissir þú til dæmis að:

♦  Í dómkirkju Barcelona, Santa Eulàlia, er lítill klausturgarður þar sem vappa um einar þrettán gæsir og hafa gert um áratugaskeið hið minnsta þó eðlilega sé ekki um sömu gæsir að ræða. Gæsirnar eru þrettán til heiðurs heilagri Eulàliu sem er einn verndardýrlinga Barcelóna en stúlkan sú lést aðeins þrettán ára að aldri.

♦  Erlendir ferðamenn og þar með taldir Íslendingar þekkja Römbluna mætavel enda vandfundir staðir þar sem finna má meira líf í tuskum hér um slóðir. En það er algengur misskilningur að Ramblan sé í eintölu. Réttara er að tala um Römblurnar því það sem heimamenn kalla Las Ramblas/Les Rambles á við um heilar fimm götur; Rambla de Canaletes, Rambla dels Estudis, Rambla de Sant Josep, Rambla dels Caputxins og Rambla del Mar.

♦  Meðan spænska borgarastyrjöldin geysaði voru byggð hér fjölmörg undirgöng og sprengjuvirki beint undir borginni. Megnið af þessu er allt þarna ennþá en töluvert skemmt og ónýtt og borgaryfirvöld lítt hrifin af því að rifja upp þá sögu. Það er hins vegar í það minnsta einn slíkur staður sem hægt er að sjá og skoða. Það er Byrgi númer 307, Refugi 307, sem er opið skoðunar allan ársins hring í Borgarsafni Barselóna, Museu d´Història de la Cuitat í Poble Sec hverfinu.

♦  Það tæki hálfa ævina, eða að minnsta kosti allt fríið, að kynna sér hvern krók og kima hinnar stórfenglegu kirkju Gaudís; Sagrada Familia. Veggir hennar þaktir myndum, táknum og styttum og gefa kirkjunni enn áhrifameiri blæ en ella. Ein táknmynd sérstaklega er merkileg en sú er af gárungum kölluð Töfrateningurinn. Það er ferkantað box með númerum sem við fyrstu sýn virðast ekki þýða neitt sérstakt. En staldri maður við og leggi haus í bleyti sést fyrr en síðar að útkoman úr öllum dálkum er hin sama: 33. Það er einmitt aldur Jesú Krists þegar hann á að hafa látist.

♦  Barselóna hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir frábærar strendur en þær eru ekki margar stórborgirnar sem bjóða upp á fyrsta flokks strendur við bæjardyrnar. Það kom þó ekki af sjálfu sér. Allt Barceloneta hverfið, við ströndina, er uppfylling og meira að segja eftir það voru hér engar merkilegar strendur. Það var leyst í aðdraganda Ólympíuleikanna með því að flytja hingað fleiri tonn af þeim gullna sandi sem nú prýðir strendurnar.