V á! Ég hafði ekki hugmynd um að það væru svona alvöru strendur í Danmörku…

Nánast í göngufæri frá miðborg Kaupmannahafnar er Amager strönd sem tekið hefur stakkaskiptum til hins betra. Mynd denmarkdotdk

Nánast í göngufæri frá miðborg Kaupmannahafnar er Amager strönd sem tekið hefur stakkaskiptum til hins betra. Mynd denmarkdotdk

Svo komst einn reyndasti blaðamaður landsins að orði fyrir nokkrum árum og vakti athygli enda um þjóðþekktan mann að ræða. Staðreyndin er engu að síður sú að þrátt fyrir að þúsundir Íslendinga hafi ferðast til Danmerkur í áranna rás eru merkilega margir hissa á þeirri staðreynd að til eru baðstrendur í Danmörku sem alls ekki eru síðri en gerist mun sunnar við Miðjarðarhafið þegar sólin skín hvað hæst á sumrin.

Sandurinn er mögulega aðeins grófari en gerist á suðrænari slóðum en á móti kemur að danskar baðstrendur eru upp til hópa hreinlegri og vatnið ómengaðra en gerist við strendur Ítalíu eða Spánar. Þar eru enda rúmlega 200 danskar strendur með Bláfánann svokallaða en þá vottun fá aðeins strendur sem eru hreinar og fínar og sjórinn með.

Hér eru fimm þeirra allra bestu:

Strandlengja Ebeltoft telur rúma þrjá kílómetra alls og að mestu sandströnd.

Strandlengja Ebeltoft telur rúma þrjá kílómetra alls og að mestu sandströnd.

♥  Ærøkøbing strönd – Smábærinn Ærøkøbing á eynni Ærø á suður Fjóni er afskaplega fallegur staður og alfarið laus við stress og streð. Ströndin við bæinn fyrsta flokks. Hrein og falleg og bugðótt að auki svo sóldýrkendur geta auðveldlega fundið sér afvikna staði á ströndinni. Aðstaða til fataskipta og engir hættulegir straumar haldi menn til sunds. Sjá myndband af eynni hér en af því að dæma gæti Ærø auðveldlega sómt sér meðal smáeyja við Grikkland.

♥  Saksild strönd – Löng og falleg strönd nálægt Odder á Jótlandi. Hér er sandurinn merkilega fínkornaður og friður og spekt enda spottakorn í bæinn Saksild. Barnavæn mjög og engir straumar í hafinu sem áhyggjur þarf að hafa af. Var kosin ein af þremur bestu ströndum Danmerkur af lesendum Jyllandsposten árið 2007.

♥  Skærby strönd – Þessi á Sjálandi er vinsæl hjá barnafjölskyldum og hingað sækir líka mikið brimbrettafólk enda góður vindur og öldur hér yfir sumartímann. Heimilt er að hafa gæludýr hér svo lengi sem þau eru í ólum.

♥  Amager strönd – Þessi er ein sú heitasta meðal borgarbúa í Kaupmannahöfn og ástæða til enda afskaplega falleg og hrein og stutt frá borginni. Útivistarfólk kemur gjarnan hingað og stutt er í alls kyns þjónustu. Hér eru líka bátaleigur, blaknet og ýmislegt annað sé nóg komið af lagningu undir heitri sólinni. Heimasíðan.

♥  Grønhøj strönd – Einhver allra besta strönd í norðurhluta Evrópu að mati heimamanna á Jótlandi. Breið og mikil og hægt að aka hana endilanga. Nokkur gustur gerir brimbrettafólki auðvelt fyrir og klettaskornir vogar eru spennandi fyrir þá sem ekki hafa þolinmæði til liggja marflatir og brenna. Töluverð ferðaþjónusta er við ströndina og þar má finna hótel í heimsklassa jafnt sem íþróttahús og sundlaugar sem standa öllum til boða. Heimasíðan.

Allar Bláfánastrendur Danmerkur hér.