S ælkerar og bóhemar um heim allan vita sem er að bestu knæpur velflestra borga eru litlir og sérkennilegir barir sem oftar en ekki eru utan þjónustusvæðis ef svo má að orði komast. Þeir eru sem sagt fæstir á korti ferðamanna og viðhalda þannig heimagerðum sjarma.

Næturlífið í París er fjölbreytt og skemmtilegt og margir barir hér sem eru heimsóknar virði. Mynd Pigcroccio

Næturlífið í París er fjölbreytt og skemmtilegt og margir barir hér sem eru heimsóknar virði. Mynd Pigcroccio

Þetta á ekki hvað síst við í París þar sem sagt er að séu rétt tæplega sjö þúsund kaffihús/barir í heildina. Það segir sig sjálft að stór hluti þess fjölda eru litlir og oftar en ekki litríkir staðir sem sannarlega eru heimsóknar virði fyrir þá sem vilja upplifa raunverulega Parísarstemmingu en ekki túristapakkann.

Hér að neðan eru fimm slíkir sem varla setja blett á heimsókn hingað og gætu ef sá gállinn er á gestum gert góða ferð betri. Það er nefninlega öllu auðveldara að kynnast litríku fólki á þessum litlu stöðum en á stóru frægu kaffihúsunum. Kort af öllum stöðunum neðst á síðunni.

♥  LES CARIATIDES  >>  Þessi er æði þekktur meðal borgarbúa og þá fyrst og fremst fyrir sína lifandi tónlist í örlitlum kjallara þar sem sándið gerist ekki betra. Hér er tónlist eða leikatriði nánast upp á hvert einasta kvöld og daglega „happyhour“ tilboð frá 16 til 21. Rue de Palestro. Heimasíðan.

♥  LE MOTEL  >>  Pínulítil búlla sem fjölsótt er af listafólki og hér dynur gjarnan tónlist Sex Pistols og Joy Division í bakgrunni en þó án þess að yfirgnæfa spjallara. Ekki dapurt heldur að hér er tilboð á drykkjum alla daga nema mánudaga milli 15 og 21. Passage Josset Heimasíðan.

♥  LE TRUCMUSH  >>  Þessi kannski meira í ætt við klúbb en bar en hér er aldeilis fyrirtaks staður til að hefja gott djamm. Barinn býður helmings afslátt af drykkjum klukkan 18 og til 22 öll kvöld en góð og takföst danstónlist heldur gestum í góðum fíling. Þá er sjón að sjá staðinn sjálfan því litríkari og súrrealískari bar er vandfundinn. Passage Thiere. Heimasíðan.

♥  CANDELERIA  >>  Þessi er reyndar orðinn þekktur og þá ekki síst meðal þotuliðs Parísar sem á það til að koma hingað í stórum grúppum.  Gestir staðarins segja kokteilana hér þá allra bestu í borginni og það stór orð. Hér líka hægt að grípa matarbita án þess að yfirgefa sætið. Ekki fyrir alla en mjög heillandi fyrir hina. Rue de Saintogne. Heimasíðan.

♥  LE MADAMOISELLE  >>  Stelpukvöld framundan? Þá er þetta sannarlega staðurinn og enginn fer á mis við það enda hér allt meira eða minna bleikt innandyra og gestir oftar en ekki af kvenkyns eingöngu. Sérstakir kokteilar ýmsir hér þar sem áfengi er til dæmis blandað saman heilsute og heilsudrykki ýmsa. Tilboð á drykkjum til 21 öll kvöld. Avenue Philippe Auguste. Heimasíðan.