A llir sem stigið hafa fæti niður í Kaupmannahöfn síðustu misserin hafa ekki farið varhluta af því að danska krónan er á sterum og einföldustu hlutir í okkar gömlu höfuðborg kosta nú formúgur. Þá er nú aldeilis tilefni til að taka skrefið inn á næsta flóamarkað.

Ekkert Kolaportsrugl hér. Í Köben eru alvöru flóamarkaðir. Mynd KBH
Ekki eru allir spenntir fyrir flóamörkuðum eða loppemarkeds eins og Daninn kýs að kalla fyrirbærið. Sumir sem minna eiga þurfa á slíka staði hvort sem þeim líkar betur eða verr en fleiri hafa þó einfaldlega gaman að því að valsa um stæður eftir stæður af vörum og fatnaði og leita uppi eitthvað spennandi.
Slíkir markaðir eru samt extra spennandi í dönsku höfuðborginni vegna þess að Danir almennt eru mjög nýtnir og hafa alltaf verið. Þeir fara frekar með dót sitt á slíka markaði en að henda því á haugana. Sem veldur því líka að margir Danir stoppa fyrst á slíkum mörkuðum áður en þeir halda í eiginlegar verslanir og er til eftirbreytni að okkar mati nú þegar gengið er hratt á flestar auðlindir jarðar. Það skýrir að hluta þá merkilegu staðreynd að í Danmörku kostar inn á velflesta flóamarkaði.
Nóg um það. Þessir flóamarkaðir eru þeir helstu og bestu í Kaupmannahöfn og allir opnir meira og minna laugardaga og sunnudaga að minnsta kosti. Kort hér að neðan:
- KBH Markeder >> Einn nýjasti og stærsti flóamarkaðurinn finnst í gamla Carlsberg hverfinu. Nánar tiltekið við Ny Carlsberg Vej 91.
- Den Blå Hal >> Þessi er kominn aðeins til ára sinna en hefur undanfarin ár verið sá stærsti í borginni. Amagerbanen 9.
- Remisen >> Tiltölulega stór markaður með yfir eitt hundrað sölustanda hverja helgi. Blegdamsvej 132.
- Turbos Loppebazar >> Þessi markaður í minni kantinum og spottakorn frá miðborginni í Valby. Nánar tiltekið í Poppelstykket 8.
- Svalerne Loppemarked >> Þessi er að því leyti frábrugðinn öðrum hér að það eru hjálparsamtök sem reka þennan markað. Hluti söluandvirðis fer til góðs málefnis. Nattegalevej 6.