F lestir sem komnir eru á miðjan aldur og tóku spor á dansgólfi hér áður fyrr muna eflaust eftir einu vinsælasta lagi poppstjörnunnar Madonnu þar sem hún brá fyrir sig ljúfri spænsku í La Isla Bonita.

La Isla Bonita eða fallega eyjan sem Madonna söng um er eyjan San Pedro úti fyrir ströndum Belís. Mynd CameliaTWU
Ólíkt mörgum öðrum poppurum hefur Madonna sjaldan bullað tóma steypu í textum sínum og því ætti engum að koma á óvart að hún er að syngja um ákveðna raunverulega eyju sem hún kallar eyjuna fallegu.
Eyjan sú er San Pedro í Belís í Mið-Ameríku en landið býr yfir miklum dásemdum svo sem næststærsta kóralrifi heims á eftir Kóralrifinu mikla við Ástralíu.
San Pedro er paradís eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd en samnefndur bær stendur á eynni. Er staðurinn æði vinsæll meðal Bandaríkjamanna og hafa reyndar auðugir Bandaríkjamenn keypt upp allt sem hægt er að kaupa hér um slóðir.
Ekki fylgir sögunni hvers vegna Madonna heillaðist sérstaklega af þessari eyju umfram aðrar en í kjölfar lagsins margfaldaðist ferðamannafjöldi á þessum litla stað og fyrir vikið varð hún aðeins minna heillandi en ella.