H vað gerist þegar harðkjarna Harley-Davidson mótorhjólagengi taka undir sig heilan smábæ heila helgi? Ekki það sem þú heldur 🙂

Óárennilegur hópur. En bara við fyrstu sýn.

Óárennilegur hópur. En bara við fyrstu sýn.

Nokkur fjöldi Íslendinga hefur eytt tíma í Daytona á Flórída þegar hin fræga Daytona Bike Week fer fram einu sinni á ári. Það sannarlega lífsreynsla en þá hópast saman í þessari 70 þúsund manna borg allt að hundrað þúsund mótorhjólatöffarar og 400 þúsund ferðamenn aðrir til að fylgjast með fjörinu.

Slíkar mótorhjólahátíðir eru æði algengar og til að mynda halda Harley-Davidson grúppur eða gengi úti árlegum hátíðum með einu eða öðru móti í einum rúmlega 30 löndum heims. Sumar risastórar en aðrar minni og þægilegri í sniðum. Ein slík fer fram í bæ í norðurhluta Frakklands. Bæ sem er svo lítill að hann finnst varla á korti.

Hardelot-Plage heitir sá og þar búa heilar 3.200 hræður. Bærinn er svefnbær à la Garðabær og næsta fátt sem þar er við að hafa nema ef vera skyldi að sóla sig á ágætri ströndinni að sumarlagi og fyrir þá sem eldri eru að spila golf.

Það breytist kyrfilega eina helgi í september ár hvert. Þá er haldið upp á Opale Harley Days og fyrir þá helgi drífur að Harley-Davidson gengi frá mörgum helstu löndum Evrópu. Þó hátíðin sé smá í sniðum mæta þó allt að tíu þúsund mótorhjólatöffarar þegar best lætur og þeir fá að raða hjólum sínum snyrtilega í röð eftir öllum megingötum bæjarins þann tíma.

Einhver gæti haldið að glæpir og vitleysa fylgi hratt á hæla Harley-Davidson gengja í frönskum smábæ þar sem varla er einn lögreglumaður starfandi. En öðru nær. Hér sætir tíðindum ef eitthvað gerist meðan á hátíðinni stendur. Ástæða þess sú að hér er næstum alfarið um eldri gengismeðlimi að ræða. Það er að segja að meðalaldur Harley töffaranna á Opale slefar vel yfir fimmtugt.

Fólk komið á þann aldur og margir vel þar yfir er kannski minna að glæpast og meira að njóta ævidaganna. Og það tekst svo mætavel í Hardelot að fáir íbúar Hardelot láta sig vanta á hátíðina. Börn þar meðtalin.

Sjálfsagt að renna við ef þú finnur þig á rúntinum hér um slóðir síðla sumars en í kring er krökkt af forvitnilegum stöðum að sjá og upplifa. Fyrir utan merkilega skreytt og fjölbreytt Harley-Davidson hjólin sem hér finnast.