Skip to main content

Háskólabærinn Edirne er oftar en ekki fyrsti bærinn sem ferðafólk sem kemur landleiðina frá Evrópu sér eða uppgötvar í Tyrklandi. Bærinn liggur nánast á landamærum Grikklands og Búlgaríu og var hér áður fyrr töluvert mikilvægari en hann er nú. Meðal annars var Edirne höfuðborg Ottómana áður en þeir náðu Konstantinoble (Istanbúl) á sitt vald.

Tvennt er í bænum sem landsþekkt er og jafnvel heimsþekkt. Annars vegar árleg glímukeppni, Kirkpinar, þar sem menn hvaðanæva að úr landinu koma saman og reyna með sér ataðir sérstakri olíu frá toppi til táar. Þykir mikill heiður að sigra slíka keppni og hefur viðburðurinn notið mikilla vinsælda sem ná langt út fyrir landssteinanna.

En öllu veigameiri er hin gríðarlega Selimiye moska, Selimiye Camii, sem er á pari við Hagia Sophia að stærð á hæð og breidd. 45 metra há og 33 metra breið og er hún óumdeilanlega merkilegasta moska frá Ottóman tímabilinu. Hönnuð af hinum fræga arkitekt Mimar Sinan sem dreymdi um að gera mosku sem bera myndi af Hagia Sophia í Istanbúl. Lést hann sjálfur haldandi að það hefði honum tekist en seinni tíma mælingar hafa sýnt að Selimiye er nánast alveg sömu stærðar og fyrirmyndin en þakkúpan er grynnri. Engu að síður er mannvirkið stórkostlegt og sést langt að þar sem það situr á lítilli hæð í Edirne.

Til er saga sem segir frá því að Sinan hönnuður og soldánninn deildu hart um hvort moskan ætti að hafa 999 glugga eða 1000. Vildi soldánninn meina að fólk myndi betur eftir tölunni 999 og hafði betur. Moskan er opin daglega. Enginn er aðgangseyrir en framlög þegin. Hafa skal einnig í huga að moskan er í notkun.

Séu moskur almennt hugðarefni er bærinn fínn áfangastaður í nokkra daga því þar eru einar sex moskur til fyrir utan Selimiye. Fallegar aldagamlar brýr má þar sjá yfir árnar Tuna og Meric og vinsæll gamall basar fyrirfinnst í miðbænum.