V ið fyrstu sýn yfir smábæinn Derinkuyu í miðhluta Tyrklands er fátt sem vekur sérstaka athygli gesta. Áður fyrr vakti bærinn sömu viðbrögð fjölmargra innrásarherja öld eftir öld og fyrir vikið héldu herskáir stríðsmenn för sinni áfram til stærri borga til að ræna og rupla.
Það voru slæm mistök því undir þessum friðsæla bæ var og er það sem sagt er vera stærsta neðanjarðarborg heims þar sem allt að 30 þúsund manns gátu hafst við í allt að sex mánuði án þess að koma upp á yfirborðið.
Ekki þarf neinum að koma á óvart að neðanjarðarborgin er einn vinsælasti ferðamannastaðurinn á annars stórmerkilegu Kappadokkía svæðinu í Anatólíu í Tyrklandi. Sökum rannsókna er ennþá aðeins helmingur þessa mannvirkis opið skoðunar en það sem hægt er að skoða gefur ágæta mynd af þessu mikla mannvirki sem er á ellefu hæðum, nær 65 metra niður í jörð og fræðingar vilja meina að hafi falið allt að 20 þúsund manns þegar mest gekk á.
Hönnuðir borgar þessarar voru engir aukvisar eins og þeir sem sjá um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu íslenska. Allt er skipulagt í þaula. Þröngir gangar sem torveltu aðkomu þeirra óvina sem uppgötvuðu þennan falda stað og gerðu íbúum þannig auðveldara fyrir að verjast árásum. Stórir salir fyrir fundahöld og meira að segja ráð gert fyrir húsdýrum neðst í borginni. Loftræstigöt á yfirborðinu falin með steinum og fundust aðeins við nána leit.

Hið eina sem gefur til kynna að eitthvað búi hér undir eru loftgöt á steinstrýtum fyrir ofan hellaborgina
Ekki nóg með að Derinkuyu ein og sér hafi verið risastór heldur var hún tengd löngum neðanjarðargöngum við aðrar minni „borgir“ á svæðinu sem einnig voru notaðar sem skjól fyrir íbúa gegn blóðþyrstum múslimum og síðar innrásum Mongóla.
Derinkuyu er spottakorn frá vinsælum áfangastöðum Íslendinga við Miðjarðarhafsstrendur Antalya og Bodrum. Á milli er sjö til átta stunda akstur og því kannski ekki sjálfsagt að láta sig hafa heimsókn nema panta hótel eina nótt í Kappadokkía áður en haldið er til baka á ströndina.