F áum dytti í hug að kalla bakka Þingvallavatns rivíeru Íslendinga enda fjarri sjó og enn fjarri því að vera í heittempraða beltinu sem er skilgreining orðabóka á orðinu rivíera. Svisslendingar láta slíkar skilgreiningar lönd og leið og hafa lengi vel kallað bæinn Rapperswil í suðurhluta Zürich-vatns hina svissnesku rivíeru.

Vísindarannsóknir hafa sannað að blómailmur hefur afslappandi áhrif á mannfólk. Taugastrekktir gætu því gert heimskulegri hlut en dvelja í Rapperswil í Sviss.

Það eitt og sér er dálítið merkilegt en kannski enn merkilegri er yndisleg lyktin sem segja má að leiki um hluta bæjarins alla sumarmánuðina. Það er hinn dásamlegi ilmur af rósum. Hundruð þúsunda rósa nánar tiltekið.

Rapperswil er nefninlega rósabær þeirra Svisslendinga og hann þekktur fyrir það bæði innanlands og utan og hefur verið um aldaskeið. Það má meira að segja sjá rósir í skjaldarmerki bæjarins.

Hér eru þrír tiltölulega stórir rósagarðar sem sérstaklega eru ræktaðir sem slíkir og í þokkabót eru rósir í hverju einasta blómabeði á almenningssvæðum í bænum. Og eins og allir vita gefa rósir í blóma frá sér mikla angan og góða og þær eru auðvitað líka til í öllum regnbogans litum. Rósirnar, eðli máls samkvæmt, blómstra þó að mestu aðeins að sumarlagi.

Fararheill mælir eindregið með skottúr hingað fyrir þá sem hafa hugsað sér að kíkja til Zürich en þangað er flogið beint héðan. Rapperswil er aðeins í hálftíma fjarlægð á bíl en öllu yndislegra er að taka bátstúr á milli og njóta fagurs útsýnis yfir fallegt vatnið og nágrennið hér um slóðir.