Skip to main content

L íklega hefur þú ekki heyrt talað um Costa Smeralda enda vilja Ítalir sem minnst láta uppi um þessa gríðarvinsælu strandlengju í norðausturhluta Sardiníu. Það eru jú ansi margir Ítalir sem telja þessar strendur þær fallegustu í öllu landinu og þeir sækja hingað í miklum mæli.

Hluti Costa Smeralda og myndin eins og úr auglýsingabæklingi. En svona er þetta allt staðar hér. Mynd santiMB

Hluti Costa Smeralda og myndin eins og úr auglýsingabæklingi. En svona er þetta alls staðar hér. Mynd santiMB

Ritstjórn Fararheill.is getur enda staðfest að ljóst hár og fölbleik húð er jafn áberandi á Costa Smeralda og Ítalir á hreindýraveiðum á Fljótsdalshéraði.

Það fer ekki framhjá neinum þegar aðrir en Ítalir planta handklæði sínu á ströndinni hér en sökum þess er einmitt möguleiki að kynnast heimamönnum afslöppuðum og jafnvel með bros á vör sem er nokkuð sem ferðamenn verða lítið varir við á vinsælli ferðamannastöðum Ítalíu.

Strandlengjan hér er vinsæl meðal þotuliðs Ítala sem þó notar ströndina lítið en snekkjur sínar meira. Sökum þess flykkjast hingað einnig tugþúsundir ungra meyja í von um að hitta stjörnurnar á förnum vegi. Það reyndar kemur fyrir og má lesa um slík atvik hvert sumar í einu af tugum slúðurtímarita landsins.

Hafa verður góðan fyrirvara á að verða sér úti um hótel yfir annatímann á sumrin og sérstaklega í júlí og ágúst þegar Ítalir sjálfir halda í frí. Að því sögðu er óhætt að mæla með Costa Smeralda sem afskaplega fínum áfangastað og enginn skortur er á góðum veitingastöðum né afþreyingu enda láta Ítalir ekki bjóða sér hvað sem er.

[alert type=secondary]Þegar talað er um Costa Smeralda er verið að meina nánast alla strandlengjuna í norðausturhluta Sardiníu að meðtöldum nokkrum fallegum eyjum lengra út í hafi. Fjölmargar ferjur flytja fólk hingað frá meginlandinu yfir sumartímann og þá áð í borginni Olbía. Bíll er nauðsyn sé hugmyndin að skoða sig um og óhætt að fylla vasana duglega af seðlum. Þetta er ekki ódýr áfangastaður.[/alert]