H verjum dytti í hug að enn þann dag í dag sé með afskaplega góðu móti hægt að fá sér bjór með Mussolini, hinum steindauða ítalska einræðisherra?
Réttara væri reyndar að segja Mussolini bjór en það er raunverulegur mjöður sem eingöngu er seldur í litlum smábæ ekki ýkja langt frá Cesena og Bologna á Ítalíu. Predappio heitir sá bær og þar finnst varla verslun sem ekki selur Mussolini mjöðinn af krana, á flöskum eða í dollum.
Í sama bæ eru líka „hágæða“ kínverskar bjórkönnur til sölu með flennistórri mynd af Mussolini gamla og ekki má gleyma peysunum, öskubökkunum, hnífapörunum og alls kyns öðru drasli sem er með einum eða öðrum hætti merkt Mussolini í bak og fyrir.
Ekki svo að skilja að verið sé að selja dánarbúið heldur er Predappio fæðingarbær þess Mussolini sem gerði garðinn misfrægan sem einræðisherra Ítalíu um langt skeið. Og bærinn atarna hefur makað krókinn allar götur síðan og má heita að þar sé önnur hver búlla að selja sama einræðisherraglingrið.
Til að gera illt verra eru einnig hér í boði fasistafánar af ýmsum gerðum og stærðum og þar meðtalinn nasistafáninn sem enginn kippir sér upp við að selja eða sjá hér í bæ. Alls kyns aðrir munir tengdir myrkum tímum Þýskalands og Ítalíu eru hér fáanlegir í tonnavís þrátt fyrir að bæjaryfirvöld hafi árið 2008 lagt blátt bann við sölu slíkra hluta.
Það vitaskuld trekkir að vanheilt fólk eins og mykja flugur og yfir sumartímann eru hér heilu hóparnir af gengjum nýnasista og annarra aðdáenda fasista af öllu tagi og eru óhræddir við að flíka fasistakveðjum og öðrum viðbjóði sem tilheyrði tímum Hitlers og Mussolini. Gott ef þetta er ekki uppáhaldsbær Guðmundar Franklíns á Ítalíu líka.
En aðallega, fyrir utan að vera bærinn þar sem Mussolini fæddist, þá er þetta líka bærinn þar sem Il Duce, eins og Mussolini lét kalla sig, er grafinn í miklu steinhýsi sem vel er hirt um.
Mussolini, þó vel þekktur sé fyrir ýmis grimmdarverk og á köflum hreina heimsku, hefur alla tíð verið vel liðinn af ákveðnum hópi landsmanna enda stóðu honum fáir á sporði við ræðumennsku á sínum tíma. Ræður hans fylltu brjóst vondaufra Ítala og fylla enn í sumum tilfellum.
Í öllu falli er forvitnilegt að stoppa hér stundarkorn. Berja augum það glingur og drasl sem hér selst ívið betur en heitar lummur. Taka spjall við heimafólk sem enn heldur að Mussolini hafi verið grjótharður plebbi, rífast aðeins yfir því og halda svo förinni áfram á einhvern skemmtilegri áfangastað.
Bærinn er í rétt tæplega hundrað kílómetra fjarlægð frá Bologna og þangað er klukkustundar akstur á góðum degi.