Skip to main content

U m síðustu aldamót fundust sjö mismunandi jólamarkaðir í Berlínarborg. Fyrir þessi jólin finnast í borginni hátt í 50 slíkir.

Of mikið af því góða í Berlín? Mynd Wlodi

Of mikið af því góða í Berlín? Mynd Wlodi

Þetta vitum við vegna þess að við heimsóttum alla jólamarkaði Berlínar árið 2000 og nú má lesa í dagblaðinu Berliner Zeitung að heildarfjöldinn þetta árið muni slefi yfir 50 talsins og vel yfir eitt hundrað séu þessir hefðbundnu litlu markaðir taldir með.

Sé það rétt, og ekki drögum við einn helsta fjölmiðil borgarinnar í efa, þá er í Berlín einn jólamarkaður á hverja 35 þúsund íbúa.

Sem kannski virðist ekkert of mikið. Hér er jú verið að tala um stærri markaði sem taka undir heilu torgin og jafnvel strætin og telja vel yfir eitt hundrað sölubása.

En þó færa megi rök fyrir að heildarfjöldinn sé kannski ekki um of þá er þetta klárlega dæmi um græðgi út í eitt. Það er jú ekki eins og sömu fjöldaframleiddu vörurnar séu ekki til sölu á þessum mörkuðum, sama fjöldaframleidda jólaglöggin og jafnvel sömu fjöldaframleiddu jólabásarnir líka.

Þetta vita þeir sem fyrir standa og reyna eftir mætti að greina sig frá fjöldanum. Hinn eini sanni jólamarkaður Berlínar finnst á Gendarmenmarkt og þó mannfjöldinn þar sé oft helst til mikill er stemmningin hvergi jafn góð. Svo er það jólamarkaðurinn í Spandau í vesturhluta borgarinnar sem þykir hafa hvað lengsta söguna. Stór jólamarkaður finnst auðvitað líka við Charlottenburg höllina sem er mögulega sá markaður sem er hvað þýskastur í merkingunni að hér finnst mun meira af jólamunum frá Berlín en annars staðar. Mesta sjónarspilið finnst í Grasagarði Berlínar, Botanischer Garten, sem breytist í ljósasjó par exellans þegar kvölda tekur. Ágætur markaður rís líka við hina frægu Minningarkirkju skammt frá Ku´damm verslunarmiðstöðinni sem margir kannast við. Verslunarmiðstöðin sjálf engin eftirbátur og heldur úti eigin jólamarkaði. Og svo framvegis og svo framvegis.

Það fer þó ekkert milli mála að Berlín er líklega jólaborg Evrópu miðað við fjölda markaða. Í Köln til samanburðar eru „aðeins“ tæplega 50 jólamarkaðir en Köln er „jólaborgin“ í hugum flestra Þjóðverja.