
Þetta var aðalkastalinn í denn tíð og ekkert amalegur í dag heldur. Garðar kastalans eru stórkostlegir.
Aldeilis makalaust hvað Frakkland er bókstaflega troðið af merkum stöðum sem næsta engir nema fræðimenn vita hvað heita eða hvar eru. Eða hvaða líkur eru á að þú hefðir skotið á smábæinn Amboise sem svarið við staðreyndunum hér að ofan?
Jamm, Amboise var það heillin. Þessi smábær með sína 1500 íbúa er ekkert að komast í sögubækurnar þessi dægrin en fyrir nokkrum öldum síðan var þetta einn merkasti staðurinn í öllu landinu.
Hér hékk sem fyrr segir franska hirðin í heild sinni og undir þá hirð dugði ekkert minna en almennilegan vel varinn kastala. Sá er virkiskastalinn Chateau d´Ambrose sem stendur hátt yfir bænum og óvíða betra útsýni yfir þennan fræga dal og samnefnda á. Kastalann hægt að skoða að utan sem innan og ef kóngar og drollur heilla ekki er eitt annað sem ætti að heilla þig ef gráu heilasellurnar virka sem skyldi. Í kapellu kastalans er grafhýsi hins ítalska Leonardo Da Vinci. Þú átt að vita hver það er.

Ljúfur lítill bær sem vert er að staldra við í. Mynd Moto Itenerai
Da Vinci dvaldi hér síðustu fjögur ár ævinnar í boði þáverandi konungs og fékk undir sig ekki mikið lakari híbýli í hefðarsetrinu Chateau du Clos Luce sem er aðeins 500 metrum frá kastala konungs og til að vísindamaðurinn þyrfti nú ekki að hafa neitt fyrir þá voru byggð undirgöng á milli.
Clos Luce setrið hefur vitaskuld verið endurbætt að hluta og þar má nú finna safn um Da Vinci auk töluverðs fjölda muna sem kappinn notaði sjálfur á sínum tíma. Hreint ágætt safn og ef þreyta sækir að er hér lítill veitingastaður líka.
Bærinn sjálfur er svo ekkert alveg galinn þó lítill sé. Mörg ævagömul hús standa enn merkilega heilleg og engum leiðist að sötra hér kaffi eða eitthvað sterkara og hlusta á fræga ána líða hjá.
Fjölmargt annað sögulegt er að finna annars staðar í dalnum og hreint ekki vitlaust að taka hér viku og sjá allt það helsta í einni ferð. Hingað tekur svona tvær til þrjár stundir að komast í bíl frá París en næsta stórborg er Tours.
Góða ferð!