Hvort það er til marks um ótakmarkaða bjartsýni og þor eða hreina og beina fífldirfsku skal ósagt látið en það má merkilegt heita hérlendis að vart er maður búinn að blikka auga fyrr en ný ferðaskrifstofa hefur tekið til starfa.
Ein í nýrri kantinum er Icegolf sem sérhæfir sig, eins og nafnið gefur til kynna, í golfferðum. Ekkert nema gott um það að segja. Þúsundir Íslendinga spila golf og fái fólk bakteríuna skiptir nánast engu hvað ferð erlendis kostar. Golf er nefninlega rammsterk fíkn.
Icegolf hefur undanfarið auglýst grimmt golfferðir til Villaitana við Benidorm og tvær slíkar sérstaklega í október. Ein vikuferð og ein tíu daga ferð.
Eins og lesendur okkar vita tökum við oft prufur hjá ferðaskrifstofum hérlendis og berum saman við það sem við finnum gegnum netið. Lesendur vorir vita líka að í 99% tilvika finnum við sömu eða sams konar ferðir á tug- og hundruð þúsunda króna afslætti.
En hvað með Villaitana? Svona er auglýsing Icegolf:
Þar hefur Fararheill dvalið og getur mælt með. Staðsetningin flott, hótelið líka og þægilega stutt í borgarlífið í Benidorm ef danskippir fara um lýðinn þegar kvölda fer. Ekki síður stutt í skemmtigarðinn fræga, Terra Mítica, sem er hér rétt fyrir ofan. Vellirnir eru tveir. Poniente er ágætur byrjendavöllur en fyrir golfara með metnað er Levante málið. Sá hannaður af Jack nokkrum Nicklaus sem stóð sig nokkuð vel bara.
Þetta er sem sagt fínasti pakki. En hvað með verðið? Hjón/Par greiða alls 489.800 krónur fyrir herlegheitin eða 48.980 krónur á dag með Icegolf.
Hvað gerist ef við kíkjum sjálf. Byrjum á Wow Air og fluginu. Flug fyrir tvo 8. til 17. okt fæst þar á 125.581 krónu með tveimur töskur og tveimur golfsettum. Á hótelvef Fararheill finnst gisting með hálfu fæði á Melia Villaitana fyrir tvo þennan tíma fyrir 191.292 krónur. Gegnum golfferðamiðilinn Golf Sun Holidays fáum við tíu hringi á Villaitana (fimm á Poniente og fimm á Levante) fyrir tvo fyrir 123.000 krónur plús klink. Heildarkostnaðurinn 439.873 krónur eða 49.927 krónum lægra en hjá Icegolf.
Í okkar dæmi vantar skutl frá flugvelli og til baka að dvöl lokinni og enginn er íslenskur fararstjóri. Hvort það er 50 þúsund króna virði er eitthvað sem þú verður að vega og meta.
Heilt yfir er þessi verðmunur samt lítill og ljóst að Icegolf er ekki að okra á einum né neinum með þessum ferðum sínum eins og sumir. Hægt að færa ágæt rök fyrir að 40 til 50 þúsund fyrir akstur og aðstoð í tíu daga sé ekkert til að kvarta yfir nema síður sé.
Nánar um ferð Icegolf hér.