Sumir staðir á hinni ágætu Algarve strönd Portúgals eru þekktari en aðrir og einn þessara annarra er fiskimannabærinn Olhão. En einmitt sökum þess hve lítið þekktur hann er gefst tækifæri til að liggja þar í leti í vikustund á fimm stjörnu hóteli fyrir brandaraverð næstu mánuði.

Lítill og sætur. Kjarni bæjarins Olhao á Algarve í Portúgal. Mynd TurismoPortugal

Lítill og sætur. Kjarni bæjarins Olhao á Algarve í Portúgal. Mynd TurismoPortugal

Það reyndar má undrast hvers vegna Olhão er ekki aðeins betur á korti ferðafólks. Hann er jú næsti bær við Faro þangað sem velflestir sem heimsækja Algarve þurfa að fljúga. Hann ætti líka að heilla þá sem finnst yfirborðskennt og þreytt að hanga á gerilsneyddum túristaströndum því merkilegt nokk er útgerð enn stærsti atvinnuvegur íbúa Olhão. Hér vinna smábátasjómenn við bryggjurnar linnulítið frá morgni til kvölds. Síðast en ekki síst stendur bærinn við mynni Ria Fermosa sjávarlónsins sem er bæði fallegt og sérstakt.

Raunin engu að síður sú að túristar eru ekki ýkja margir hér um slóðir sem kannski er ástæða þess að hægt er að gista hér í vikustund á fimm stjörnu hóteli gegnum breska ferðaskrifstofu næstu vikur og mánuði allt niður í 38 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman. Flug frá Bretlandi og aftur þangað innifalið í pakkanum.

Sem er vitaskuld brandari út í eitt en slíkir brandarar vilja stundum súrna því við þurfum jú að komast til Bretlands og ekki er alltaf hægt að slá föstu að þangað sé komist ódýrt.

Nú eru hins vegar góðar aðstæður því talsvert er af lágum fargjöldum í boði í janúar, febrúar og mars hjá Wow Air allt niður í átta þúsund krónur aðra leið. Bóki par eða hjón slíkt fargjald fram og aftur og bóki svo ferðina til Algarve má njóta lífsins þar í talsverðum lúxus fyrir undir 120 þúsund krónur samtals.

Hver sem ætlar að kvarta undan þessu má eiga sig. Hinir geta kíkt á tilboðið hér.