Nett ævintýramennska í blóðinu? Þá kannski er óvitlaust að kíkja á eitt besta ferðatilboð norsku útgáfu Travelbird þessa stundina. Það er kostulegur túr til Tansaníu og Zanzibar í Afríku og flott safaríferð innifalin. Allt á verði sem kemur þér sennilega vel á óvart.

Fátt ljúfara í þessum heimi en að anda inn og út í Zanzibar. Mynd Jason Bagley
Varla þarf að fara mörgum orðum um þessa tvo áfangastaði. Báðir heillandi í fyllstu merkingu þess orðs og það er draumur margra að fara safarírúnt áður en yfir lýkur. Þegar hægt er að sameina slíkt við slak á einhverjum fallegustu ströndum þessa heims er fátt annað eftir en rífa fram kortið og bóka.
Um er að ræða flug frá Osló til Amsterdam og þaðan áfram til Nairóbí í Kenía (handfarangur og tvær töskur frítt með) áður en strikið er tekið yfir til Tanzaníu. Þriggja daga safarítúr plús tími við ströndina þar áður en haldið er áfram til Zanzibar eyju þar sem dvalið er í fimm nætur.
Sem sagt bara æðislegt. Ekki skemmir að túrinn atarna, sem er í boði fram til mars á næsta ári, fæst á tilteknum dagsetningum niður í 240 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman. Fyrir slíka ferð er það djókverð.
Við þurfum reyndar að bæta ofan á þetta flugi til Noregs og heim aftur á klakann en þar hæg heimatök. SAS, Icelandair og Norwegian fljúga þær leiðir reglulega og 30 þúsund krónur til eða frá ættu að skila okkur báðar leiðir per haus.
Í öllu falli flottur Afríkutúr vel undir sex hundruð þúsund krónum þegar allt er til talið á hjón eða par. Mælum sterklega með þessum pakka. Kynnið ykkur ferðaskilmála ítarlega. Einhver aukagjöld bætast við og hafa þarf samband við sendiráð Tanzaníu í Svíþjóð til að fá áritun inn í landið.