Skip to main content

O kkur er sama hvað maldað er í móinn: Hver sá sem gerir sér sérstaka ferð á Volvo-safnið í Svíþjóð er í besta falli sérlundaður draumóramaður og í versta falli með eina eða tvær lausar skrúfur. Aðrir gætu þó vel haft gaman líka 🙂

Jafnvel þó þú hatir bíla er ólíklegt að þér leiðist mikið á Volvo-safninu í Gautaborg. Mynd Volvo Museet

Hið ágæta fyrirtæki Volvo, sem lengi vel var sænskt gæðamerki en er nú að fullu í eigu kínverskra aðila, lætur sitt ekki eftir liggja þegar kemur að því að halda gömlum og misgóðum hlutum til haga.

Fyrirtækið rekur safn tileinkað öllu því sem Volvo hefur framleitt gegnum tíðina allt frá árinu 1927 til dagsins í dag. Safnið atarna forvitnilegt í meira lagi og jafnvel fólk sem ekkert hefur vit eða áhuga á bílum gæti notið stundar hér.

Engum skal koma á óvart að Volvo heldur úti safni sínu í Gautaborg enda í þeirri borg sem helstu verksmiðjur og höfuðstöðvar Volvo hafa verið nánast frá upphafi. Hér er enn verið að framleiða bifreiðar og trukka þó framleiðsla á Volvo fari nú fram víða um veröldina.

Ekki á pari við flottustu bílasöfnin í Þýskalandi en Volvo er heldur enginn Benz. Mynd Vol.com

Safnið finnst í Arendal sem tæknilega er hluti af Gautaborg en er þó í 20 mínútna akstursfjarlægð frá miðborg Gautaborgar. Það er staðsett við eina af verksmiðjum Volvo og þrátt fyrir að hljóma óspennandi er afar ólíklegt að einhverjum leiðist hér mikið. Það helgast af því að hér gefur að líta margt fleira en bíla, varahluti og vélar. Fínasta kaffihús á svæðinu og hægt að fá pössun fyrir börnin fyrir alhörðustu bílaáhugamenn sem hér eyða vart undir þremur til fjórum stundum. Til marks um að hér njóta flestir þess sem fyrir augu ber ætti að nægja að nefna að aðeins eitt annað safn í Svíþjóð fær eins góðar einkunnir á vefmiðlum og safn Volvo við Gautaborg.

Aðgangseyrir per fullorðinn eru heilar 1300 krónur og bílaframleiðandinn blæðir meira að segja í frían strætó (Volvo auðvitað) frá Eketrägatan í miðborginni á heila og hálfa tímanum alla daga vikunnar.