A ð öðrum helstu söfnum heims ólöstuðum er safnið um útrýmingabúðir nasista í Auschwitz og Birkenau í Póllandi sennilega það safn heimsins sem hvað mest áhrif hefur á þá sem það heimsækja.

Enn minnir margt á tíma nasistanna fyrir 50 árum síðan. Mynd ryarwood

Enn minnir margt á tíma nasistanna fyrir 50 árum síðan. Mynd ryarwood

Sú mynd sem þar er dregin upp af mannvonsku og óeðli er svo sár að stór hluti þeirra sem þangað fara inn koma beygðir og sjokkeraðir út aftur og margir með tár á hvarmi.

Ástæða þess er einfaldlega sú að aðstandendur safnsins hafa viðhaldið því viðbjóðslega andrúmslofti sem þarna hefur verið alla tíð síðan nasistar gerðu staðinn að útrýmingarbúðum númer eitt í Síðari heimsstyrjöldinni. Grámi og grámygla, rimlar, girðingar, naktir og fráhrindandi hráir veggirnir, viðbjóðslegir gasklefarnir. Allt leggst á eitt að gera safnið raunverulegt og koma gestum þess eins nálægt þeim viðbjóði sem þarna fór fram á sínum tíma undir stjórn Þjóðverja.

Um tvö svæði er í raun um að ræða. Annars vegar Auschwitz og hins vegar Birkenau en saman mynda þau það svæði sem safnið og minningareitur samanstendur af. Enginn ætti að flýta sér við heimsókn hingað og þó hægt sé að komast yfir mestallt á 90 mínútum er nærri lagi að gefa sér þrjár klukkustundir til að fara um og ekki síst gefa sér tíma til að íhuga hvað hér gerðist og hvernig það gat gerst.

Svefnbekkir fyrir átta. Óupphitað og ógeðfellt. Mynd ryarwood

Svefnbekkir fyrir átta. Óupphitað og ógeðfellt. Mynd ryarwood

Í Auschwitz stunduðu Þjóðverjar alls kyns tilraunir á föngum sínum og þar voru fyrstu farmarnir af fólki teknir af lífi. Birkenau er hins vegar þar sem nasistarnir reistu byggingar þær er nauðsynlegar voru til að hýsa og ekki síður taka af lífi stóra hópa fólks í einu með gasklefum. Það þarf einstakling með frosið hjarta til að fara um allt svæðið og ekki taka inn á sig þann hrylling sem þarna fór fram um langt skeið.

Safnið er í úthverfi lítillar borgar sem heitir Oświęcim sem er í suðurhluta Póllands. Næsta stórborg er Krakow og ekki er ýkja langt að landamærum Tékklands og Slóvakíu. Sé fólk í skipulögðum ferðum er yfirleitt flogið til Krakow og rútur þaðan en þeir sem ferðast á eigin spýtur geta komist inn í Oświęcim með lest. Stöðin er tveimur kílómetrum frá safninu en strætisvagnar aka reglulega á milli.

Aðsókn er mjög mikil og í raun fæst lítið út úr slíkri heimsókn nema leiðsögumaður fylgi með. Slíkt er hægt að fá en aðeins með því að panta fyrirfram og þá helst tíu daga fyrirvara að lágmarki. Leiðsögumaður fyrir hvern hóp undir tíu manns kostar um 12.000 krónur og tekur túrinn um þrjár og hálfa klukkustund. Slíkt er hægt að panta á heimasíðu safnsins hér. Myndatökur hvers konar eru almennt ekki leyfðar á safngrundum né í byggingunum.

Hér má sjá gagnlega og myndræna úttekt BBC á svæðinu og gjörðum Þjóðverja hafi það farið framhjá einhverjum.