Skip to main content

E inhverra hluta vegna er alltaf jafn erfitt að ímynda sér að enn þann dag í dag starfi ítalska mafían af áfergju sem aldrei fyrr og þrátt fyrir ítrekaðar aðgerðir af hálfu ítalskra stjórnvalda er Sikiley öll ennþá í hers höndum þessara viðbjóðslegu samtaka.

Bærinn Corleone á Sikiley er bækistöð mafíósa enn þann dag í dag. Mynd Khefes

Bærinn Corleone á Sikiley er bækistöð mafíósa enn þann dag í dag. Mynd Khefes

Það fer ekki hátt en morð gerast enn reglulega á eynni og lítið verður lögreglu ágengt til að stöðva. Til eru þeir sem einmitt halda því fram að mafían á Sikiley hafi aldrei verið öflugri en nú en hafi lært að halda sig að mestu utan sviðsljóssins.

Einn er sá staður sérstaklega á eynni atarna sem stöku ferðamönnum þykir forvitnilegt að skoða en það er smábærinn Corleone. Þaðan hafa fjölmargir þekktir mafíósar komið og hreint engin tilviljun að Mario Puzo, höfundur Guðföðursins, valdi þetta ákveðna nafn sem ættarnafn aðalsöguhetjunnar í bókum sínum sem síðar urðu vinsælar kvikmyndir.

Í bænum eru ferðamenn þó litnir miklu hornauga og flestallir sem þar spássera um finna fljótt að þeir eru ekki ýkja velkomnir. Sérstaklega ef þeir þykja forvitnir. Bæjarbúar svara engu, segja lítið og raunar er bærinn tómlegur mjög fyrir utan stöku tugmilljóna sportbíla sem þar sjást á götum annars lagið.