Þ au eru mörg illræmd fangelsin í Bandaríkjunum og mörg þeirra þekkja Íslendingar mætavel úr bíómyndum og sjónvarpsþáttum gegnum tíðina. Engin þeirra komast þó með tærnar þar sem Alcatraz fangelsið hafði hælana enda sennilega þekktasta fangelsi í veröldinni.
Alcatraz fangelsið lokaði árið 1963 en saga eyjunnar Alcatraz er mun merkilegri en flestir halda.
Þar var upprunalega virki í bandarísku borgarastyrjöldinni, þá var það illræmt fangelsi í um 30 ára skeið áður en hópar úr ættbálkum indjána settust þar að um tíma í kjölfarið.
Eyjunni og fangelsisbyggingunum var breytt í eitt stórt opið safn árið 1972 og hefur með tíð og tíma orðið eitt helsta aðdráttaraflið í San Francisco borg sem þó er kjaftfull af skemmtilegum stöðum. Stór hluti fangelsisins er nú opinn ferðamönnum til skoðunar og sama má segja um aðrar byggingar á eyjunni. Fararheill mælir sannarlega með túr og ekki hvað síst sökum þess að frá eyjunni er sallafínt útsýni yfir borgina sjálfa.
Eyjuna heimsækir enginn fyrirvaralaust enda er fjöldi gesta takmarkaður. Aðeins eitt ferjufyrirtæki hefur leyfi til ferða á milli eyjunnar og borgarinnar og þar eru líka keyptir miðar. Nokkra daga fyrirvari sleppur alla jafna yfir vetrartímann en á sumrin er betra að panta með enn meiri fyrirvara. Fjórar til sex ferðir eru farnar hvern dag og farið frá bryggju 33. Miðaverð er 3.000 krónur fyrir fullorðna en 1.800 fyrir börn þegar þetta er skrifað.
Heimasíða Alcatraz Cruises hér. Heimasíða Alcatraz eyju hér.