Skip to main content
Þ að er samdóma álit allra sem ferðast hafa að þau víkka sjóndeildarhringinn verulega og gefa oftar en ekki skýrari sýn á eigið land og þjóð. Samanber málsháttinn heimskt er heimaalið barn.

Í Búlgaríu kinkar fólk kolli þegar það er ósammála þér. Mynd Eli Wolf

Í Búlgaríu kinkar fólk kolli þegar það er ósammála þér. Mynd Eli Wolf

Af því tilefni tókum við saman nokkrar forvitnilegar staðreyndir um nokkrar þjóðir Evrópu sem ekki eru á allra vitorði.

♥ Að nýta sér kosningarétt er skylda hvers manns í lýðræðisþjóðfélagi en í Belgíu, Tyrklandi og á Kýpur er hrein og bein kosningaskylda í öllum kosningum. Viðurlögin við að greiða ekki atkvæði geta verið peningasektir ellegar samfélagsvinna og í stöku tilfellum fangelsisdómur.

♥ Vinir og ættingjar í Frakklandi heilsa hver öðrum með vangakossum en hægt er að ráða í hvaðan fólk er frá Frakklandi á fjölda kossanna. Norðarlega við Brittany er einn slíkur látinn nægja en því sunnar sem dregur fjölgar herlegheitunum. Innilegir Parísarbúar brúka gjarnan fjóra kossa á vanga vina og mestur er fjöldinn meðal íbúa Korsíku á Miðjarðarhafinu. Fimm kossar á kjaft.

♥ Írar mega ekki undir neinum kringumstæðum kaupa flugelda í landi sínu. Hins vegar er flugeldasala leyfð til almennings á N.Írlandi og fyrir hver áramót leggja þúsundir land undir fót yfir landamærin og versla.

♥ Borgaryfirvöld í Berlín í Þýskalandi gera ekkert með hangandi hendi. Það er eina borgin í Evrópu og líklega í heiminum þar sem er ekki eitt óperuhús og ekki tvö óperuhús, heldur þrjú óperuhús. Enda borgin lengi verið illa stödd fjárhagslega og meðal annars vegna þessa.

♥ Það getur skapað vandræði að taka tali heimamenn í Búlgaríu. Í því ágæta landi hrista menn hausinn þegar þeir eru þér sammála en jánka þegar þeir eru ósammála. Búlgarir reyndar ekki einir um þessa sérstöðu. Slíkt tíðkast líka í Makedóníu, Albaníu og hluta Grikklands.