Skip to main content

Þ að þarf enginn að velkjast í vafa um vinsældir Santorini á Grikklandi (Thira á tungumáli innfæddra.) Það nægir að kíkja augnablik á vinsæla samfélagsmiðla. Þar finnast fleiri myndir af eynni en af nokkrum öðrum stað á Grikklandi öllu og þótt víðar væri leitað.

Klassíska myndin frá Santorini. Mynd Pedro Szekely

Sé hægt að tala um bæi og landslag sem súpermódel þá er Santorini súpersúpermódel dauðans. Hvítkölkuð húsin hvíla mörg hver í snarbröttum klettabeltum með útsýn til suðurs og yfir gíg þann sem skapaði eyna á sínum tíma. Gíg sem nú er undir sjó ef frá eru taldir tveir tindar sem sköpuðu smáeyjurnar Nea Kalemi og Palea Kameni að gosi loknu. Heitir hverir finnast á þeim báðum enn þann dag í dag.

Fegurðin óumdeilanleg, eyjan fantagóð sem útivistarsvæði með slóðum hist og her og meðfram klettalengjunni allri. Þá er heimafólk allt tiltölulega ljúft sem er nokkuð sem ekki er hægt að ganga að sem vísu á stað þar sem ferðafólk hefur fyrir löngu kaffært allt sem eðlilegt getur talist.

En sjaldan er allt gull sem glóir. Þó Santorini sé fantavel af Guði/Guðum eða náttúruvöldum gerð er hún kannski minna spennandi en margur heldur.

PLÚS EINN: Fegurðin maður minn!!! Þó eyjan sé tiltölulega lítil er útsýn af flestum stöðum aldeilis fimm stjörnu. Sumt heimafólk fullyrðir að á besta degi megi sjá bæði til Aþenu á Grikklandi og Marmaris í Tyrklandi. Báðir staðir í 250-300 kílómetra fjarlægð. Seljum það ekki dýrar en við keyptum. Það gildir þó einu því bara útsýn nokkra kílómetra til suðurs er ferðarinnar virði.

Klettabelti Santorini er himneskt. En þar kostar líka feitt að gista. Mynd Maggie Meng

PLÚS TVEIR: Merkilegt nokk er heimafólkið undarlega vinsamlegt. Ekki vingjarnlegt beint en vinsamlegt. Það mætavel skiljanlegt því ef frá er talið Kófsárið hefur ferðamennska kaffært hér nánast allt sem heimatilbúið getur um 30 ára skeið. Hér eru, almennt alla daga ársins, þrefalt til fjórfalt fleiri ferðamenn en heimamenn. Samt mætir manni undantekningarlítið bros og hjálpsemi ef eitthvað bjátar á.

MÍNUS EINN: Grægði hefur náð undirhönd hjá mörgum ferðaþjónustuaðilum á eynni og þeir komast upp með það enda eftirspurn á annatímum töluvert meiri en framboð. Gisting af tiltölulega skornum skammti heilt yfir og þá sérstaklega í eftirsóknarverðum klettabeltunum með fimm stjörnu útsýnið. Næturgisting þar á annatíma að sumarlagi kostar auðveldlega 30-40 þúsund kallinn og oft meira en það. Sama má segja um þjónustuaðila aðra. Afþreying önnur er 20-30 prósent dýrari en á öðrum vinsælli eyjum Grikklands.

MÍNUS TVEIR: Verra er að fyrir okkur Frónbúa er töluvert langt ferðalag til að njóta Santorini. Við þurfum undantekningarlítið að millilenda einhvers staðar og eða taka ferju frá Aþenu, Krít eða öðrum nágrannaeyjum. Og þó dvöl hér á flottum stað sé príma montstöff fyrir instagrammið okkar eða fésbókina þá er tiltölulega takmarkað hér við að hafa. Útsýni frá góðri íbúð eða hóteli yfirleitt stórkostlegt og hægt að dunda aðeins við tölt í bæjunum Fira og Oia. Hér er hægt að dúllast í eina eða tvær vínræktarferðir og nokkrir aðilar bjóða bátstúra eða kajakleigu og það meira segja útibíó á norðurströndinni ef Sambíóin heima eru ekki að gera sig. Svo ef fólk er lítið fyrir klifur og brölt eða gönguferðir þá gæti leiði sótt að ef dvalið er hér mikið lengur en þrjá til fjóra daga. Sem aftur er heldur lítill tími ef ferðalagið er langt ekki satt.