S jö hundruð krónur duga skammt í lífinu. Á farsæla Fróni er varla komist í strætó fyrir þann pening. Góðu heilli dugar þessi upphæð þó fyrir glasi af sex ára gömlu prýðislegu Rioja víni á bar í höfuðborg Rioja héraðs.

Laurel gata í Logrono er þekkt um allan Spán. Þar eru á litlum bletti ellefu tapas- og rauðvínsbarir hver öðrum betri. Mynd Francisco Martinez

Laurel gata í Logrono er þekkt um allan Spán. Þar eru á litlum bletti ellefu tapas- og rauðvínsbarir hver öðrum betri. Mynd Francisco Martinez

Það er ekkert nýtt að um allan Spán má finna tiltölulega ódýr vín á börum ekki síður en bjóra eða annað alkóhól. En oft, og yfirleitt alltaf á vinsælum strandstöðum, fást aðeins hræbilleg borðvín frá alls dapurlegum vínhéruðum þegar pantað er hvítt eða rautt.

En í höfuðborg Rioja héraðs, Logroño, er sannarlega almennt hellt frábæru víni í glös sé slíkt pantað. Enginn kráareigandi á þessum slóðum vill vera þekktur fyrir annað en bjóða góðan mjöð og það helst beint af næstu ekrum.

Það fer reyndar töluvert eftir börum hver prísinn og ekki síður hvaða vín er um að ræða en svo virðist sem engum þar í bæ detti í hug að bjóða ferðafólki neitt annað en góð og helst tiltölulega gömul vín sem renna ljúflegar niður en vatnssopi í Sahara.

Calle del Laurel er fremst jafningja þegar kemur að eðalgötum í Logroño sem er í rúmlega þriggja stunda fjarlægð frá Madríd og fjögurra stunda fjarlægð frá Barcelóna. Á Laurel-götu finnst nánast ekkert nema rauðvínsbarir, smáréttabarir og veitingastaðir og þeir hver öðrum skemmtilegri.

Þar getur þó orðið þröngt um mann og annan yfir sumartímann og því ráð að kíkja hingað utan þess tíma til að njóta til fulls. Og engin þörf að biðja um eitthvað sérstakt. Af yfir 20 börum sem við heimsóttum hér í borg og báðum um vín hússins fengum við aldrei yngra en fimm ára gamalt vín og í hvert einasta sinn vín úr þessu fræga vínhéraði. Allra ódýrasta glasið á heilar 370 krónur. Þetta köllum við afbragðs þjónustu 🙂

* PS: 580 krónur til 880 krónur var normið á börum í La Rioja fyrir rauðínsglas þegar ritstjórn var á ferð hér um áramótin 2019/2020. Með versnandi gæfu íslensku krónunnar má gera ráð fyrir að góðgætið gæti hafa hækkað um hundruð til tvö hundruð krónur síðan þá.