Þ að er sannarlega upplifun að vitna stærstu og hættulegustu eðlur heims í sínu náttúrulega umhverfi á Kómódó-eyju í Indónesíu. En það þarf að hafa mikið fyrir, kostar böns af peningum og er nett kjánalegt þegar vitna má þessar fallegu skepnur í nærmynd í flottum garði í höfuðborginni Jakarta.

Magnaðar skepnur sem margir vilja sjá með eigin augum.
Kómódó-drekar eru auðvitað alls engir drekar. Það bara nafnið sem gefið hefur verið þessum risaeðlum sem enn valsa um þokkalega sáttar við lífið á Kómódó-eyju í Indónesíu. En þær eru vissulega nógu stórar til að geta verið smádrekar ef slík kvikindi væru raunveruleg. Þær geta orðið þrír metrar á lengd, vegið 70 kíló og eru ekki aðeins grimmar og fljótar heldur einnig eitraðar. Það lifir enginn af bit frá þessum skepnum.
Árið 2018 lögðu stjórnvöld í Indónesíu til að Kómódóeyju yrði alfarið lokað fyrir ferðafólki tímabundið enda óttast að síaukinn straumur ferðafólks hefði mjög neikvæð áhrif á líf þessara stærstu eðla heims. Sú ákvörðun síðar dregin til baka svo enn er vissulega hægt að heimsækja Kómódó-eyju og vitna þessi mögnuðu dýr. En til þess þarf að hafa töluvert fyrir. Fólk þarf í fyrsta lagi að ferðast til eyjunnar Balí, þaðan til eyjunnar Flores með flugi eða bát og þaðan er hægt að fljóta með bát til Kómódóeyju.
Það hljómar kannski ekki svo flókið en sigling frá Balí til Flores getur tekið 36 stundir og sigling frá Flores að Kómódóeyju er yfirleitt tveggja stunda pakki.
Vel er hægt að fljúga frá Balí til Flores (Labuhanbajo) sem aðeins tekur rúma klukkustund hvora leið. Algengt verð báðar leiðir þegar þetta er skrifað hjá lággjaldaflugfélagi án farangurs er þetta tólf til fimmtán þúsund krónur á haus. En erfitt er að hitta beint á bátsferðir úr fluginu sem oft merkir gistingu minnst eina nótt eða svo.
Ofan á allt þetta kemur sú staðreynd að margir fljúga ekki beint til hinnar indælu Balí heldur negla flug til höfuðborgarinnar Jakarta og halda svo þaðan með flugi til Balí.
Og þar liggur hundur grafinn.
PS: ef þú lætur þig hafa túr til Kómódóeyju reyndu þá eftir fremsta megni að fá leiðsögumanninn til að taka þig til Pantai Merah. Pantai Merah er ein af sjö ströndum veraldar sem er bleik. Aldeilis sjón að vitna 🙂
Kómódódrekar finnst líka í Jakarta
Hundurinn sem liggur hér grafinn er sú staðreynd að í einum besta almenningsgarði/menningargarði Jakarta gefur að líta kómódódreka eins og þeir koma beint af skepnunni. Þar um að ræða Mini Indonesia skemmtigarðinn en sá er ekki aðeins til skemmtunar heldur og þar hægt að vitna svona gróflega mismunandi menningu allra héraða í landinu. Það ekki lítið afrek því fá ríki samanstanda af jafn mismunandi menningarheimum og Indónesía með sínar sautján þúsund eyjur og sex hundruð tungumál.
Kómódóeyja er vitaskuld með í pakkanum og hér má vitna í þokkalegri nærmynd fjórar eðlur dúlla sér í þokkalega náttúrulega umhverfi og stutt í bjór, mat og klósett ólíkt því sem gerist á Kómódóeyju. Heimsókn hingað kemur líka í veg fyrir að þú hugsanlega hafir neikvæð áhrif á þau dýr sem lifa á eyjunni því auðvitað hefur það áhrif að tugþúsundir ferðamanna þvælist um eyju sem fram til síðustu aldamóta var næstum algerlega laus við allt nema einstöku vísindamenn.
Taktu þér hálfan dag hið minnsta að skoða Mini Indonesia. Garðurinn ekki sá fallegasti í heimi en hér má glögglega vitna hversu mikill munur er á milli eyjaskeggja í Indónesíu.