Skip to main content

R ithöfundurinn brasilíski Paulo Coehlo á marga aðdáendur hérlendis sem víðar. Þeir sem stúdera bækur hans komast fljótt að því að söguhetjur hans eru undantekningarlítið á miklu ferðalagi. Annaðhvort innra með sér eða á raunverulegu flakki um þessa veröld.

Nokkur ferðaráð úr smiðju Paulo Coehlo. Mynd af bloggi Coehlo´s

Nokkur ferðaráð úr smiðju Paulo Coehlo. Mynd af bloggi Coehlo´s

Það á ekki að koma á óvart því sjálfur er Coehlo ferðaþyrstur með afbrigðum. Nægir að kíkja á blogg hans til að vita að þar fer kappi sem verður viðþolslaus ef haldið er lengi fyrir á sama staðnum. Það er enda Coehlo sem á heiðurinn af einhverju þekktasta orðatiltæki nútímans tengdu ferðalögum: „Ef þú heldur að ævintýri séu lífshættuleg, prófaðu þá rútínuna. Hún dregur til dauða.“

Rithöfundurinn hefur nokkrar þumalputtareglur, næstum þær sömu og ritstjórn Fararheill, þegar hann heldur í víking erlendis sem kannski kveikja samhljóm með einhverjum fleirum þarna úti.

* Þýðing ritstjórnar

♥  Ekki heimsækja söfn: Er ekki nær lagi að kynna sér nútíðina á framandi stöðum en fortíðina? Auðvitað eru söfn mikilvæg en heimsókn á slíka staði krefst bæði tíma og þekkingar til að setja hlutina í samhengi. Annars heldurðu heim með vitneskju um að hafa séð merkilega hluti en veist ekki alveg hvers vegna þeir eru merkilegir.

Eyddu tíma á börum: Það er á börum en ekki á söfnum sem lífið í bænum eða borginni birtist þér óheflað og raunverulegt. Ekki næturklúbbar heldur staður þar sem venjulegt fólk kemur saman og skrafar um lífsins gagn og nauðsynjar. Keyptu dagblað, slakaðu á og láttu draga þig inn í forvitnilegar samræður.

♥  Leitaðu upplýsinga á götu úti: Spurðu heimamann á götunni um álit eða leiðbeiningar en ekki á upplýsingaskrifstofum eða ferðaskrifstofum. Vart til betri leið til að fá allra nýjustu upplýsingar og yfirleitt bestu upplýsingar því ekkert hangir á spýtunni. Slíkt líka leið til að kynnast fólki og jafnvel eignast kunningja eða vin.

♥  Ferðist ein eða aðeins með maka ef þú ert gift/-ur: Aðeins á eigin vegum er ferðamaðurinn raunverulega að upplifa eitthvað nýtt og læra að treysta á sjálfan sig. Hópferð er eingöngu utanlandsferð þar sem þú talar þitt eigið tungumál og lærir ekkert nýtt nema nýjasta slúðrið að heiman.

♥  Slepptu öllum samanburði: Aldrei bera neitt saman við annað. Ekki verðlag, þjónustu, þrifnað, samgöngur eða neitt á ferðum erlendis. Ferðalög snúast ekki um að bera þitt líf saman við líf heimafólks. Þetta er annar heimur, annað þjóðfélag og því á að taka með opnum huga. Aðeins þannig lærist eitthvað nýtt.

♥  Mundu að allir aðrir skilja þig: Þó þú kunnir ekki staf í tungumáli þess lands sem þú heimsækir er algjör óþarfi að finna til hræðslu eða óöryggis. Fólk er fólk alls staðar í veröldinni og alls staðar er fólk sem vill og getur aðstoðað og skilur hvernig þér líður.

♥  Keyptu aðeins hluti sem þú þarft ekki að bera: Ekki fylla töskuna af nýjustu vörunum. Eyddu í leikhús, mat á veitingastöðum, ferðir út í óvissuna. Með tilkomu netverslana geturðu keypt allt hitt í eldhúsinu heima án þess að hafa neitt fyrir.