Ö ll eigum við ferðasögur sem bragð er að og sögurnar jafn misjafnar og fólkið er margt. Fararheill tók hús á nokkrum skemmtilegum einstaklingum með bullandi ferðabakteríu í blóðinu og fékk þá til að deila örlítið.
Hrafney Ásgeirsdóttir er matráður í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Gönguferðir eru hennar ær og kýr og heldur hún í bæði lengri og skemmri gönguferðir heima og erlendis á hverju sumri.
Fararheill: Dásamlegasta land sem þú hefur heimsótt og af hverju?
Hrafney: Skemmtilegasta landið sem ég hef gengið um er Ítalía. Ég gekk um Toscana hérað í fyrstu ferðinni þangað og meðal annars gistum við á stað sem aðeins var fær þeim fótgangandi, enginn vegur, bara stígur og kláfur fyrir dótið. Þar bjuggu 2 menn sem sáu um mat og gistingu. Við smökkuðum á þeirra eigin framleiðslu á rauðvíni og maturinn var himneskur þrátt fyrir að þarna væri ekkert rafmagn. Við borðuðum alltaf úti og grilluðum við varðeld. Þetta var eftirminnileg ferð og ég held að maturinn hafi staðið uppúr.
Fararheill: Besta verslunarborgin að þínu mati og af hverju?
Hrafney: Ég er léleg í verslunarferðum.
Fararheill: Hver er þín versta lífsreynsla erlendis?
Hrafney: Versta lífsreynsla í gönguferð var sennilega þegar ég veiktist í gönguferð í Ölpunum. Ég missti tvo daga úr göngunni og safnaði kröftum á gistiheimili í þorpinu Zams í Austurríki. Þar þagði ég meira og minna í 2 daga vegna lítillar þýskukunnáttu sem var erfitt fyrir málgefna manneskju. Allt gekk þetta nú upp og þarna upplifði ég ýmislegt sem ég hefði ekki vilja missa af ,smakkaði meðal annars heimsfrægan austurrískan svepparétt því það var það eina sem ég skildi af því sem í boði var á matseðlinum. Það var dásamlegt að hitta ferðafélagana og geta farið að tala aftur.
Fararheill: Hvaða erlendu staðir hafa komið þér mest á óvart?
Hrafney: Slóvenía kom mér mest á óvart. Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara, en það var allt upp á tíu, innlendu fararstjórarnir voru góðir og gisting matur og ferðatilhögun til fyrirmyndar. Ég sigldi út í kirkjuna á Bled vatni og þvoði augun upp úr vígðu vatni og hringdi kirkjuklukkunum. Það á víst að vera allra meina bót!
Fararheill: Eitt það mikilvægasta að hafa í huga á ferðalögum er…?
Hrafney: Mitt ráð til ferðalanga er helst að vera opnir fyrir öllu og passlega ævintýragjarnir. Nota netið til að fylgjast með, hlusta á reynslusögur og spyrja heimamenn eins og sagt er.