E nn einn merkilegur bærinn skammt frá Las Palmas á Kanarí er Teror í um 25 mínútna fjarlægð frá höfuðborginni á bíl. Teror nýtur þess heiðurs að vera trúarleg höfuðborg Kanarí enda hér heimili verndardýrlings eyjunnar: Furujómfrúarinnar.
Ekki skal gera lítið úr trúarhita eyjaskeggja. Efist einhver um að kaþólsk trú eigi djúpar rætur hér á eynni nægir að koma til Teror þá daga sem trúarsamkomur eiga sér stað. Það ætti að sannfæra alla þó deila megi um hversu trúaðir íbúar á Kanarí séu svona út á við.
Annað sérstakt við Teror er hversu vel gömlum húsum hér hefur verið viðhaldið en bærinn er einn sá elsti á á Kanarí og hér sem annars staðar í grenndinni var og er ýmis ræktun mikilvægasta atvinnugreinin.
Hér hafa heimamenn gert sérstakt átak í að varðveita hið gamla og sérstaklega í miðbænum í Calle Real de la Plaza vekur hvert húsið á fætur öðru aðdáun ferðafólks. Sérstaka eftirtekt vekja svalirnar sem prýða hér nánast öll hús. Þær kunna að koma á óvart enda sjaldgæft að sjá slíkar svalir almennt. Í ljós kemur þó, kynni fólk sér söguna, að svalir af þessum toga var regla en ekki undantekning á gömlum húsum á Kanarí. Sem segir töluvert um hversu mikið af þessu gamla klassíska hefur orðið tímanum að bráð á eynni.
Dómkirkjan er skoðunar verð og ekki hvað síst að fylgjast með þegar messað er hér. Hér líka er lítil kapella sem reist var síðar; kapella Maríu meyjar, sem nú er safn.
Bakvið kirkjuna er önnur bygging sem ekki virðist mjög ólík kirkjunni. Þetta er Episcobal höllin, Palacio Episcobal, sem reist var úr afgöngum af því efni sem féll til við byggingu dómkirkjunnar. Sem varpar ljósi á hversu svipaðar þær báðar eru.
Annað safn, ef safn skyldi kalla, finnst við Plaza de Nuestra Senora del Pino, en í þessu tilkomumikla íbúðarhúsi má sjá hvernig aðalsfólkið og þeir ríku lifðu hér fyrr á stundum. Ekkert ómissandi en forvitnilegt.
[alert type=secondary]Verndardýrlingur Kanarí, Furujómfrúin er tilkominn vegna þess að seint á fimmtándu öld vitnuðu bæjarbúar líkneski Maríu meyjar með Jesúbarnið í örmum sér á toppi gamals furutrés við bæjarmörkin. Í kjölfarið fór fólk, leiknir og lærðir, að lofsama Drottinn við tréð.[/alert]