Skip to main content
S em betur fer þekkja fæst okkar þá tilfinningu að vera rænd á erlendri grundu en slíkt gerir undantekningarlítið ljúft fríið að martröð á augabragði. Ein fjölskylda sem lenti illa í því árið 2010 á Spáni gerir sérstakar ráðstafanir þegar ferð erlendis er á döfinni.

Fyrirfram greidd kort geta margborgað sig ef þú lendir í misyndismönnum erlendis.

Kjartan Sveinsson og fjölskylda lentu sennilega í því einhverju því versta sem venjulegur ferðamaður getur lent í erlendis árið 2010. Þau voru rænd flestum sínum verðmætum strax á flugvellinum við komuna til Kanarí.

„Við þurftum að bíða mjög lengi eftir töskunum okkar úr vélinni og þar sem lent var mjög seint að kvöldi og við höfðum aðeins fengið okkur um borð á leiðinni var athyglin víðs fjarri þegar við lentum. Það tók samt 20 mínútur að töskurnar okkar skiluðu sér og við öll harla þreytt.”

Fjöldskyldan greip töskur sínar og hélt út um tollhliðið.

„Ung dóttir okkar var aðframkomin af hungri og þess vegna stoppuðum við í fyrsta sölubás sem við fundum eftir að hafa komist út. Við vorum öll töluvert hungruð en ánægð að hafa komist á áfangastað og athyglin var ekki 100 prósent. Við föttuðum ekkert fyrr en við kláruðum matinn að eina töskuna okkar vantaði. Nákvæmlega þá tösku sem við geymdum í fjármuni, lyf og vegabréfin.”

Um leið greip um sig stress og áhyggjur því vegabréfslaus gat fjölskyldan ekki skráð sig inn á hótelið og við tók næstum sólarhringur af hræðilegu veseni og vandræðum. Enginn hóteleigandi sá aumur á fjölskyldunni fyrr en um sex-leytið morguninn eftir. Sá leyfðu familíunni að fá herbergi þrátt fyrir að vera ekki með vegabréf eða geta greitt tryggingu.

„Ég hafði strax samband við Vísa á Íslandi til að frysta kortin okkar en það tók víst hálfan sólarhring og á þeim tíma gat þetta pakk náð 700 evrum út af kortum okkar. Sem betur fer var eiginkonan með 400 evrur í seðlum og ég með 70 evrur svo við gátum bjargað okkur sæmilega um nauðsynjar svona meðan bankinn heima sendi okkur ný kort. En það tók fimm daga að fá þau með hraðpósti. Sem er æði langur tími til Spánar.”

Kjartan veit upp á sig sökina að hafa verið annars hugar en hann kann ágætt ráð fyrir aðra sem hyggja á ferðir utanlands.

„Síðan þetta gerðist á Kanarí 2010 hef ég og fjölskyldan öll orðið okkur úti um fyrirframgreidd kreditkort. Held þau séu kölluð Vísa Plús eða eitthvað svoleiðis. Slík kort eru miklu ódýrari almennt en hin venjulegu en það góða er að hver og einn getur sett inn á þau hvaða upphæð sem er. Ég set aldrei hærri upphæð inn á kortið en þetta 30 til 50 þúsund krónur svo að ef til þess kemur að ég verð rændur aftur þá missi ég aldrei hærri upphæð en það. Mæli algjörlega með slíkum kortum í stað þessara hefðbundnu því það er ótrúlega auðvelt fyrir glæpamenn að ná öllu af reikningum ef um venjulegt kort er að ræða.