Skip to main content

Ritstjórn Fararheill er síðasta fólkið á jörð til að setja út á ferðir og ferðalög. Ekkert undir sólinni er uppbyggilegra fyrir sálina en þvælingur um heiminn að okkar mati. En þar með er ekki sagt að af því hljótist ekkert slæmt.

Léttur túr til Kanarí og heim aftur er rándýr fyrir andrúmsloftið okkar.

Hið slæma við það er loftmengun. Þó meginsök mengunar á heimsvísu eigi takmarkað skylt við ferðir þá er það staðreynd að koltvísýringsmengun flugvéla sem flytja fólk milli staða er óhuggulega mikil og á nokkuð stóran þátt í hlýnun jarðar.

Til að færa heim sanninn um það nægir að skoða lítillega hvað við eitrum andrúmsloft jarðar með því að bóka flug til Kanarí og heim aftur.

Það hljómar nú ekki alvarlegt. Eða hvað?

Mengandi álver er vandamál. En það gera miklu fleiri sem ekkert borga. Skjáskot Vísir

Segjum sem svo að við séum tvö saman í vélinni með hefðbundinn farangur flugfarþega þá leiðina. Sá túr okkar bætir litlum 4.200 kílóum af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Og þú veist kannski að koltvísýringur er ein allra alvarlegasta gróðurhúsalofttegundin og stór ástæða þess að það er tíu stiga hiti á Íslandi í desember.

Er það mikið kannt þú eðlilega að spyrja. Til að setja það í skiljanlegt samhengi þá er það svipað mengunarmagn og ef þú ekur fjórtán sinnum hringinn um Ísland á nútíma meðalbíl.

Með tilliti til að loftmengun gæti eytt öllu lífi á jörð löngu áður en sólin okkar springur og setur endanlegan punkt og að sannað er að loftmengun dregur úr lífslíkum fólks er makalaust hvað lítið fer fyrir aðgerðum gegn mengun. Engum þingmanni dettur í hug að setja til dæmis mengunargjald á flugfélögin íslensku. Slíkt væri klárlega fyrsta skrefið.

Wow Air hvorki býður né krefur farþega um á að kolefnisjafna flug á vef flugfélagsins. Samt er eigandinn, Skúli Mogensen, mjög ósáttur við mikla mengun í Hvalfirði þar sem hann á fínt sumarhús.

Icelandair var um tíma í fararbroddi flugfélaga þegar það flugfélag bauð öllum viðskiptavinum upp á kolefnisjöfnun gegnum Kolvið. Kúdos á það. En áhugi viðskiptavina var lítill sem enginn og það verkefni dó drottni sínum.

Ágætt að hafa í huga að það verður ekkert spennandi að sjá eða skoða í heiminum að 50 árum liðnum ef allir hugsa svona. Það verður ekki einu sinni líft á Kanaríeyjum og engar sendnar strendur heldur. Góð tíðindi fyrir börnin okkar og barnabörn …ekki.