Skip to main content
Tíðindi

Utanlandsferðir að setja Ísland á hausinn?

  08/03/2012desember 22nd, 2013No Comments

Þá sjaldan maður lyftir sér upp er ávallt einhver tilbúinn að skemma fyrir og koma fólki jafnharðan niður á jörðina. Það á við um greiningardeild Arion banka sem telur mikið óráð hversu mikið Íslendingar eru farnir að ferðast að nýju eftir hrunið.

Í viðtali Viðskiptablaðsins við Kristrúnu Mjöll Frostadóttur, sérfræðing hjá greiningardeild Arion, kemur fram sú greining hennar að það séu tíðar utanlandsferðir landans sem séu að valda því að innflutningur mælist meiri en útflutningur annað árið í röð. Með öðrum orðum: Íslendingar séu strax farnir að eyða um efni fram þrátt fyrir að hafa lent í einhverju mestu fjármálahruni í skráðri sögu mannkyns.

Og Kristrún hefur nokkuð fyrir sér. 21.200 Íslendingar fóru utan í febrúarmánuði eða tæplega tvö þúsund fleiri en héldu út í sama mánuði fyrir ári síðarn. En forvitnilegasta staðreyndin er samt sú að einungis þrívegis áður hafa fleiri landsmenn haldið á erlenda grundu í þessum mánuði. Það eru semsagt fleiri að ferðast í febrúar 2012 en gerðu að hluta til á svokölluðum góðæristíma þegar gull glóði á hverju strái.

Vitaskuld er þjóðin afar skuldsett og í slíkri tíð er vænlegra að halda aftur af sér í munaði sem ferðalög sannarlega eru.

Á hinn bóginn er heldur ekki fráleitt að ætla að þúsundir landsmanna hafi einmitt ekki hreyft rass frá landinu vegna hrunsins en séu aðeins að leyfa sér að lifa á nýjan leik. Og burtséð frá fjármunum í ríkissjóði snýst lífið um að lifa því en ekki bara að vera.