Skip to main content
Tíðindi

Iceland Express á sér vart viðreisnar von

  08/12/2011No Comments

Meirihluti þátttakenda í nýrri skoðanakönnun telur ólíklegt að Iceland Express muni ná sér á strik á nýjan leik eftir það sem á undan er gengið. Eru rétt tæp 70 prósent svarenda á þeirri skoðun.

Nýtt flugfélag og nýr forstjóri hjá Iceland Express. Meirihluti telur samt ólíklegt að ferðasalinn nái sér á strik á nýjan leik

Varla hafa raunir ferðasalans Iceland Express farið fram hjá nokkrum manni síðustu mánuðina. Fyrrihluta árs voru tafir og seinkanir véla þeirra regla fremur en undantekning eins og Fararheill greindi vel frá á þeim tíma. Það var þó ekki fyrr en með vorinu sem aðrir fjölmiðlar fóru að fjalla um málið og síðan hefur ferðasalinn verið undir smásjánni án þess þó að takist hafi að gera mikla bragarbót á töfum og seinkunum. Auk þess hefur þótt skorta nokkuð á þjónustustig ferðasalans síðasta árið.

En nú hefur Iceland Express gert skurk í sínum málum og slitið samningi við flugfélagið Astreus sem að nokkrum hluta var ábyrgt fyrir þeim töfum sem reglulega voru á flugi Iceland Express. Tekið var upp samstarf við CZA Airlines nýlega en eins og Fararheill hefur sagt frá þykir það flugfélag ekki síðra hvað þægindi og þjónustu varðar en sjálft Icelandair.

En kannski var sárið of djúpt til að bjarga sjúklingnum samkvæmt áliti 69 prósenta þeirra sem svöruðu þeirri spurningu á vef Fararheill hvort Iceland Express ætti sér viðreisnar von eftir það sem á undan er gengið. 31 prósent svarenda telja hins vegar að ekki sé annað hægt en rísa úr öskustónni.

Tekið er fram að um vefkönnun er að ræða og hún á engan hátt vísindaleg þó niðurstöðurnar gefi gjarnan nokkuð glögga mynd af stöðu mála. 327 aðilar tóku þátt að þessu sinni. Ný könnun er nú aðgengileg á vef Fararheill.