Skip to main content

Þann 12. september síðastliðinn hóf flugvélaframleiðandinn Boeing að birta slatta af 30 sekúndna löngum myndböndum á helstu samfélagsmiðlum. Myndböndum sem eiga að gera lýðnum ljóst að þrátt fyrir allt og allt hugsar Boeing ekki um annað en öryggi á öryggi ofan.

Boeing-Max vélar Icelandair. Hefur þú áhuga að fljúga með þeim eða Max-vélum annarra flugfélaga á nýjan leik í framtíðinni? Mynd Icelandair

„Öryggi farþega og áhafnar er þungamiðja allrar okkar starfsemi, segir öryggisfulltrúi Boeing, í einu myndbandinu. „Við höfum fengið hundruði verkfræðinga til að ganga úr skugga um að þessar vélar okkar (Boeing Max) séu 100 prósent öruggar. „Ég fyrir mitt leyti mun setja alla mína fjölskyldu um borð í fyrsta flug eftir að flugbanninu lýkur.”

Það var og.

Ekki von til annars en Boeing reyni að bjarga því sem bjargað verður af orðsporinu. Ef ekki tekst að fá farþega í Max-vélarnar þegar og ef þær fá flugleyfi á nýjan leik gæti Boeing fyrirtækið í heild sinni farið á hausinn á fimm mínútum sléttum.

Samkvæmt könnunum sem gerðar voru í sumar sem leið þarf aldeilis að sannfæra fjölda fólks, og það jafnvel á feitu afsláttarverði, að það sé þess virði að stíga upp í Max-vél ef svo fer að þær rellur fá leyfi til flugs á ný. Sem er alls ekki gefið.

En vonandi fara nautheimskir yfirmenn Boeing að átta sig á því að eyða tæplega tveimur milljörðum króna í lobbíista í Washington til að koma í veg fyrir hertar öryggisreglur nái fram að ganga eru 2 milljarðar í súginn. Svo ekkert sé nú minnst á að eyða mestöllum hagnaði fyrirtækisins í að kaupa eigin bréf og greiða feitari hagnað en Boeing hefur nokkru sinni gert í stað þess að spreða í rannsóknir til að gera flugvélar Boeing betri og öruggari en ella.

Vonandi fer Boeing yfir um sem fyrirtæki. Því það eiga fyrirtæki skilið sem setja hagnað hluthafa framar öllu öðru í rekstrinum.