Skip to main content

A usturíki, Ítalía, Sviss, Frakkland, Andorra. Hreint úllala fyrir allt skíðaáhugafólk að vetrarlagi. En það kostar skildinginn bæði að komast þangað og að skíða þar. Það ekki svo mikið raunin í kóngsins Köben.

Ekki á pari við Alpafjöll mikið en Copenhill er merkilega skemmtilegur skíðastaður.

Enn einu sinni er ritstjórn Fararheill að skrifa greinar eftir að hafa étið töfrasveppi og japlað á kókajurtum kann einhver að hugsa. Eða hvaða vanviti flýgur til flatasta lands heims til skíðaiðkunar?

Kannski ekki margir en það eru heldur ekki margir sem vita af tilvist Copenhill í okkar ágætu höfuðborg til forna.

Copenhill er heimatilbúið „skíðasvæði” ofan á stórri endurvinnslu á Amager-eyju í Kaupmannahöfn til norðurs af Kastrup-flugvelli sem velflestir Íslendingar kannast við. Þar er bókstaflega hægt að skíða eða brettast allan ársins hring.

Jú, vissulega eilítið einhæft. Brekkan er reyndar rúmir 400 metrar að lengd og merkilega gaman að renna sér þar niður þó enginn sé snjórinn. En á móti kemur að þetta er inni í skemmtilegri borg en ekki í krummaskuði í afdölum Alpafjalla. Stutt á hótelið, djammið eða í Jónshús eftir atvikum.

Miðaverð í Copenhill er misjafnt eftir vertíð og tegund miða en klukkustund ein og sér, sem dugar í þetta átta til níu túra, kostar um þrjú þúsund íslenskar krónur þegar þetta er skrifað. Ekki gefins neitt en á móti kemur að við komumst yfirleitt til Köben fyrir helming þess sem flug að Alpafjöllum kostar.