A lltaf er góður tími til að heimsækja Tæland að okkar mati. En kannski er tælenska nýárið allra skemmtilegasti tíminn því þá brýst fram barnið í heimamönnum og ferðalangar sem það upplifa fara flestir heim uppfullir af ánægju, virðingu og líklegast rennblautir.
Songkran kalla heimamenn nýárshátíð sína sem ávallt fer fram á allra heitasta tímanum í landinu. Í grunninn snýst Songkran um að halda til síns heima og veita eldri fjölskyldumeðlimum, vinum og munkum virðingu sína en gegnum tíðina hefur það þróast í að bregða á leik um leið og kasta vatni og jafnvel hveiti á alla sem fyrir verða.
Einhver aðdáandi útvarps Sögu kann að fussa og sveia yfir slíkum barnalátum en það er akkúrat mergur málsins að sleppa fram af sér beislinu og taka þátt. Í flestum bæjum og þorpum Tælands er þetta raunin og bráðskemmtilegt að reyna að sleppa framhjá krökkum, unglingum og jafnvel miðaldra fólki sem hefur það eina markmið að rennbleyta hvern sem framhjá fer.
Enginn er verri þótt hann vökni og allra síst í hitanum í Tælandi umkringdur brosandi og vinalegu fólki sem Tælendingar eru upp til hópa. Sérstaklega er skondið þegar börnin gera sér að leik að henda hvítu hveiti yfir alla sem blotna og gefa fólki þannig ásýnd framliðinna tímabundið.
Fyrir þá sem lítið hafa gaman af góðri skemmtun er þessi tími líka fínn til að heimsækja stórborgina Bangkok. Það helgast af því hversu margir borgarbúar halda inn í land í fjölskylduhagana þennan tíma og ys og þys í höfuðborginni merkjanlega minni en á öðrum tímum.
Nýárshátíðin fer ávallt fram 13. til 15. apríl ár hvert.