Skip to main content
Í   fimm til tíu ár hafa stöku flugfélög heimsins boðið fólki sem annt er um þessa litlu plánetu okkar að kolefnisjafna flugferðir sínar. Slíkt hafa margir gert enda fátt sem mengar meira en rellur á fleygiferð um allar trissur 365 daga á ári.

París á fögrum sumardegi. Eða reyndar ekki. Feit mengun um allar trissur. Mynd Anna Hidalgo

Kolefnisjöfnunin virkar þannig að greiði fólk sérstaklega fyrir slíkt mun flugfélagið sjá um að planta tilteknum fjölda trjáa sem eiga svo að núlla út hugsanleg neikvæð umhverfisáhrif á fluginu þínu. Tré éta jú í sig koltvísýring í andrúmsloftinu og það er sá fjandi sem er að gera allt verra.

Hugmyndin per se óvitlaus og sannarlega er þörf á að gestir heimsins hugsi miklu meira um neikvæð áhrif á þennan fagra bláa hnött því við eigum bara til eitt stykki.

En þrír risagallar eru á kolefnisjöfnunarprógrammi flugfélaga sem og reyndar flestra annarra fyrirtækja sem þykjast opinberlega hafa verndun jarðar að leiðarljósi (Bónus einhver…)

Mínus A snýst um að ekki nokkur opinber sála neins staðar fylgist með því að flugfélög sannarlega standi við stóru orðin og hendi fjármunum þeirra sem vilja kolefnisjafna raunverulega til skógræktar. Vill einhver veðja að flugfélög, sérstaklega þau smærri, noti kannski kolefnisjöfnunarpeningana í eitthvað allt annað þegar til kemur? Þetta eru jú „gefins” peningar, bankabók margra flugfélaga oft tómleg og þeir þurfa að standa skil á rekstrinum fyrir hluthöfum sem heimta arð á arð ofan. Sem fer ekki saman við að sýna veröldinni lit.

Mínus B er öllu verri og þar gefum við okkur að flugfélög og önnur fyrirtæki sem kolefnisjöfnun lofa séu að standa við sitt. Það merkir að flugfélagið skuldbindur sig til að jarðsetja nokkur tré til að ferðin til að kaupa dýrt glingur í Köben eða Boston kosti nú heiminn ekki neitt.

Þar liggur steindauður hundur grafinn. Orsökin sú að enginn gróðursetur fullvaxta tré heldur eru það græðlingar sem fara í moldina. Og hver einasta hugsandi manneskja veit sem er að það tekur græðling að lágmarki tíu ár að verða að alvöru tré og þá miðað við þær trjátegundir sem fljótastar eru að vaxa. Í hitabeltislöndum er tíminn mun lengri en það. Og græðlingur tekur fjarri því jafn mikinn koltvísýring úr andrúmsloftinu og raunverulegt fullvaxta tré. Það tekur áratugi og þú löngu dauð/-ur.

Mínus C snertir svo skógarhögg og skógarelda sem orðnir eru algengari en fáránleg kosningaloforð Miðflokksins. Sem sagt súperalgengt. Ekki margir vita að þegar tré er fellt eða tré brennur til ösku í eldi þá losnar allur koltvísýringur sem tréð hafði safnað aftur út í andrúmsloftið.

Þetta skiptir stóru máli. Ekki einungis er gríðarlegt skógarhögg búið að breyta Amazon-frumskóginum úr því að safna koltvísýringi í að dreifa koltvísýringi heldur og þarf ekkert að líta lengra en til Íslands til að finna dæmi um vitleysisháttinn. Hver einasti kjaftur á klakanum er að byggja pall heimavið og í bústaðnum og í pallinn þarf auðvitað við og það helst fokdýran sjaldgæfan við svo allt sé nú montflott í næstu garðveislu. Beggja vegna við híbýli eins ritstjórnarmeðlims í Hafnarfirði er búið að fella sex 40 ára gömul tré BARA ÞETTA SUMARIÐ. Þau skyggðu jú aðeins á sólina…

Farið að hugsa gott fólk. Við eigum bara einn heim 😉