Nokkuð hefur verið í boði undanfarin ár af skipulögðum ferðum til bæjarins Salou á Costa Daurada ströndinni í Tarragona í Katalóníu en sá er í rúmlega hundrað kílómetra fjarlægð frá Barcelona.
Skemmst er frá að segja að Salou er fínn til brúksins að því gefnu að einu kröfur ferðamannsins séu sól, sandur og hæfilegt úrval af miðlungsgóðum börum og veitingastöðum. Leiti fólk fyllri fullnægju en svo er hætt við andvarpi fljótlega eftir komuna og þá sérstaklega hjá karlmönnum sem langaði annað en þorðu aldrei að tjá sig.
Hér er ávallt töluvert offramboð af breskum ferðamönnum sem er klárlega annar mínus í kladda Salou að mati ritstjórnar Fararheill. Það helgast af nálægð bæjarins við Reus flugvöllinn en þann völl nota mörg lágfargjaldaflugfélög og hingað því ódýrt komist víðast úr Evrópu.
Hér í grennd eru einnig tveir skemmtigarðar sem eru fínir fyrir smáfólkið sé það með í för. Port Aventura er víðfrægur og skemmtilegur dagstund eða svo. Við hlið hans er vatnsleikjagarðurinn Caribe Aquatic sem rekinn er af sömu aðilum og Port Aventura.
Þess utan er fátt hér um fína drætti ef þorsti er í annað en sól og þá sælu sem því fylgir. Engin söfn er hér að finna og afþreying af skornum fyrir utan röfl á börum og diskótekum. Mestmegnis eru það þó ferðamenn sem finnast þar en ekki heimamenn.
Verslanir eru hér en flestar gera þær út á ferðamenn og prísinn eftir því.
Til og frá
Sem fyrr segir er Reus flugvöllur hér skammt frá en hundrað kílómetrar í Barcelóna og flugvöllinn þar. Reglulegar rútuferðir með Busplana eru frá báðum flugvöllum frá morgni til kvölds og kostnaðurinn um 1.100 krónur frá Reus og um 2.200 frá Barcelóna aðra leið.
Mögulegt er að taka lest til Tarragona og þaðan aðra til Salou en það er allt of mikið vesen fyrir stutta vegalengd. Leigubíll er vænlegasti kosturinn en túrinn tekur um tíu mínútur til korter og ætti ekki að kosta meira en 2.500 krónur.
Samgöngur og snatterí
Salou er sáralítill strandbær og hann hægt að labba fram og aftur á skömmum tíma. Því engin þörf á fararskjóta innanbæjar en hér er lítil rútustöð þaðan sem hægt er að skjótast í næstu bæi og alveg inn til Barcelona ef út í það er farið.
Söfn og sjónarspil
>> Gamli turninn (Torre Vella) – Þessi gamli turn stendur einn og yfirgefinn við ströndina í Salou og er óhrjálegur orðinn. Innandyra fara fram smærri listasýningar yfir sumartímann.
>> Ævintýragarðurinn (Port Aventura) – Þennan skemmtigarð þekkja margir enda einn sá vinsælasti og stærsti á Spáni. Eðalstaður fyrir smáfólkið og reyndar ágæt skemmtun fyrir smáfólk sem komið er til ára sinna. Heimsókn er þó fjarri því ókeypis. Einstaklingar niður í ellefu ára greiða um 7.000 krónur fyrir aðgang en þeir yngri komast inn fyrir 6.200 krónur. Garðurinn er auðfundinn til norðurs af bænum og er alveg í göngufæri fyrir flesta. Heimasíðan.
>> Vatnsleikjagarðurinn (Costa Caribe) – Þessi er skemmtilegri en Port Aventura að okkar mati en hann er rekinn af sömu aðilum og reka Port Aventura. Hér er hægt að leika sér út í eitt á sundskýlum og sundbolum og rennibrautir hér sumar verulega fullorðins. Miðaverð hér inn 3.500 krónur fyrir unglinga og fullorðna en 2.400 fyrir aðra. Heimasíðan.
>> Leikjagarðurinn (Bosc Aventura) – Lítill leikjagarður fyrir smáfólkið skammt frá ströndinni við Carrer de Barbastre. Segja má að þetta sé leikskóli fyrir lengra komna og allnokkur æði skemmtileg leiktæki hér að finna eins og hoppukastala, klifurgrindur og annað fjör. Hér er líka litbyssuleikvangur fyrir þá eldri. Greitt fyrir hvert og eitt leiktæki. Heimasíðan.
>> Töfrahúsið (House of Illusion) – Töfrasýning og matur með á litlum stað við Calle Penendez 12. Töfrasýningin þykir góð en matur og drykkir ekki svo mikið. Fokdýrt inn eða frá 3.700 krónum. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Nei! Hér er eins og annars staðar í strandbæjum enginn skortur á minjagripaverslunum og götusalar áberandi. En alvöru verslanir eru hér fáar. Sé hugmyndin að fata sig upp eða eyða alvarlegum peningum í vörur er miklu vænlegra að taka lestina til Barcelona og versla eins og fólk.
Matur og mjöður
- THE GUINNESS TAVERN
- KAHLUA
- NEW LITTLE HAMPTON
- THE BELL TAVERN
- LA TORTILLITA
Líf og limir
Engar stóráhyggjur hér. Geyma verðmæti á öruggum stað og taka aðeins smáupphæðir með í hvert sinn og þannig koma í veg fyrir hjartaáfall ef óprúttnir komast í vasa.
[/vc_message] [vc_video title=“DAGUR Í LÍFI SALOU“ link=“http://vimeo.com/15329094″