Þ eir sem hafa flakkað um Evrópu í rólegheitum vita að hvergi líður manni betur á ferðalögum en í eldgömlum smábæjum. Í þeim virðast bæjarbúar blessunarlega lausir við læti, yfirborðsmennsku og sömuleiðis hangir enginn innandyra mikið á facebook.

Frakkland er stútfullt af smábæjum sem eru svo yndislegir að menn kvíða heimferð eftir andartak á slíkum stað. Einn slíkur er Saint Émilion í Gironde í Aquitaine héraði Frakklands en þar búa innan við þrjú þúsund sálir.

En Saint Émilion býr yfir fleiru en vingjarnlegum bæjarbúum og ljúflegu andrúmslofti. Þessi yfirlætislausi bær er nefninlega mekka rauðvínsgerðar í Frakklandi. Hann deilir þeim titli reyndar með nágrannabæjum og ekki síður borginni Bordeaux sem vín héraðsins eru oftast kennd við. Þó falla vín héðan ekki undir Bordeauxvínin per se.

Eins og það sé ekki nóg er Saint Émilion einnig gömul miðstöð kristinna manna og miðað við smæð er ótrúlegur fjöldi fallegri minja og bygginga hér. Svo mikill fjöldi reyndar að bærinn er eins og hann leggur sig á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Síðast en ekki síst er bærinn umkringdur vínekrum á alla kanta og tilkomumiklir kastalar og villur prýða landslagið svo langt sem augað eygir. Hér eru í góðum radíus um bæinn hvorki fleiri né færri en hundrað vínbændur og margir þeirra bjóða upp á vínsmökkun og eða heimsóknir.

Loftslag og ljúflegheit

Hér er dæmalaust þægilegt að vera því þótt hér sé mjög kalt yfir háveturinn er hitastig orðið þægilegt, á íslenskan mælikvarða, strax í mars og helst þægilegt langt fram í nóvember. Að sama skapi er engin hætta að fólk deyi úr hita hér þó hitinn geti náð 25 stigum í júlí og ágúst. Orsökin sú að bærinn er ekki langt frá hafi og andvari þaðan heldur loftinu þægilegu.

Til og frá

Hingað er aðeins komist akandi á bíl eða með rútu. Næsti alþjóðaflugvöllur er í Bordeaux í 50 kílómetra fjarlægð en tveir minni flugvellir finnast í nágrannabæjunum Lussac og Bergerac.

Rútur fara reglulega milli Bordeaux og til flestra bæjanna í nágrenninu. Til Saint Émilion tekur túrinn tæpa klukkustund en leiðin er skemmtileg og ýmislegt ber fyrir augu.

Engin þörf á vélknúnu ökutæki í bænum sjálfum enda lítill þó reyndar steini lagðar göturnar geti verið erfiðar yfirferðar.

Söfn og sjónarspil

>> Einsetuhellirinn (Cave de l´Ermitage) -Upphaflega náði bærinn frægð ekki fyrir vín heldur sökum þess að hér settist að í helli munkur einn vinsæll sem sagður var kraftaverkamaður. Hér lifði munkurinn við lítið yfirlæti í helli sínum um árafjöld og ekki löngu síðar var klaustur og kirkja byggt hér honum til heiðurs. Kirkjan æði falleg og 133 metra hár kirkjuturn hennar áberandi víða að. Turninn er opinn gestum. Hellirinn, kirkjan og klaustrið eru fjölsótt enn þann dag í dag af trúuðum. Munkurinn, Émilion, gaf bænum nafn sitt og sömuleiðis er allt vín héðan nefnt eftir kappanum. Kirkjan er auðfundin og fyrir ofan hana er að finna Kapellu heilagrar þrenningar sem ekki er síður verð skoðunar. Í hellinum sjálfum má sjá svefnpláss og stól hoggið úr steini sem munkurinn á að hafa gert sjálfur á sínum tíma. Opið 9:30 til 18 yfir sumartímann en skemur þess utan. Place du Marché F. Aðgangseyrir 800 krónur.

>> Katakomburnar (Les Catacombes de Saint Émilion) – Tengt hellinum og kirkjunni er fjöldi katakomba og ganga sem fylgjendur munksins grófu í stein eftir að munkurinn var allur. Talið var að það færði gæfu að grafa fólk á þessum helga stað. Hluti þessara gangna er opin skoðunar og í boði að fá leiðsögn um svæðið allt allan ársins hring. Leiðsögn 1.200 krónur.

>> Roi kastalinn (Château du Roi) – Kastali sem sagður var byggður af Lúðvík þrettánda konungi var æði nútímalegur á sínum tíma. Hér voru til dæmis klósett í útveggjum sem var nýmæli. Kastalinn er kominn til ára sinn og verður seint lýst sem sérstaklega fallegum en af toppi hans er frábært útsýni yfir bæinn og langleiðina að sjó. Um tíma var ráðhús bæjarins í kastalanum. Rue Grande-Fontaine F. Miðaverð 400 krónur.

>> Marché torgið (Place du Marché) – Næsta torg við hellinn, kapelluna og katakomburnar eru æði fínn staður fyrir málsverð eða glas af víni dagsins.

>> Collegiale kirkjan (Église Collégiale) – Enn ein kirkjan í bænum er þessi rómverska kirkja við Place Pierre Meyrat. Hún er opin gestum.

>> Cadéne virkisveggurinn (Porte de la Cadéne) – Leifar af virkisveggnum sem umlukti bæinn á sínum tíma. Aðeins er um eitt hlið að ræða sem stendur enn en auk þess er hér timburhús frá fimmtándu öld sem er merkilegt að sjá. Rue Cadéne.

Matur og mjöður

Ekki skal koma á óvart að hér í rauðvínslandi skuli finnast afbragðs veitingastaðir. Hér eru nokkrir innanbæjarstaðir sem fá fínar einkunnir. Verðlag er þó í hærri kantinum almennt á þessu svæði.

Ekki þarf að hafa mörg orð um frönsku rauðvínin. Gnótt af þeim og skylda að planta rassi á einn af nokkrum sérstökum vínbörum hér og prófa hin ýmsu vín. Skammt frá bænum er víngerðin Château Villemaurine og þar hafa menn ýmsar leiðir til að kynna og selja vín sín. Meðal annars með mikilli ljósasýningu.

Bærinn er einnig þekktur fyrir makkarónukökur með möndlum og nokkrar verslanir hér selja slíkt góðgæti.

Hátíðir og húllumhæ

Hér í Saint Émilion er sérstaklega eftirsóknarvert að vera þegar tvær helstu hátíðir bæjarsins fara fram en báðar eru auðvitað tileinkaðar víni. Annars vegar er það vorhátíðin sem stendur yfir í þrjá daga í júní en þá er haldin skúðganga sérstakrar dómnefndar, Jurade, sem gætir þess að gæði vínsins sé nægilegt hvert ár.

Sama dómnefnd kemur einnig saman þriðju viku septembermánaðar þegar nefndin með miklum formlegheitum setur uppskerubann. Á sama tíma gefst færi að smakka uppskeru þess árs.

Þá má heldur ekki gleyma árlegri jasshátíð bæjarsins sem stendur yfir í nokkra daga í senn og fer jafnan fram í júlímánuði. Nánar hér.