Skip to main content

A llir vegir liggja til Rómar segir víðfrægt orðatiltæki. Sem er afskaplega fín auglýsing fyrir ítölsku vegagerðina en auðvitað steypa hin mesta og jafnvel þó satt væri myndu velflestir gefast upp sökum umferðaþunga löngu áður en inn í borgina væri komið. Fyrir hina sem koma flestir með flugi til heimsóknar er Róm ekkert minna en stórkostleg. Jafnvel einstaklingar sem skiluðu auðu á öllum söguprófum komast ekki hjá því að finna fyrir anda liðinna tíma hvarvetna í elsta bæjarhluta borgarinnar.

Erfitt er að lýsa þessari merku borg í fáum orðum án þess að detta í klisjukistu dauðans enda hafa ýmsir vitrir og vit lausir menn lýst borginni gegnum aldirnar og þó sitt sýnist hverjum um smáatriðin eru þeir sárafáir sem heimsækja Róm og fara þaðan minni menn.

Lýsingarnar skipta hundruðum. Borg hinna sjö hæða, borgin eilífa, borg ástarinnar og svo má lengi telja. Hér búa þó töluvert færri en búast mætti við eða rétt tæpar 3.5 milljónir íbúa.

Helstu hverfi

Miðborg Rómar skiptist í níu hverfi en það er nánast eingöngu miðborgin sem er dvalarstaður 99 prósenta þeirra sem þangað koma til heimsóknar. Eru enda úthverfi borgarinnar töluvert nýlegri en gamla miðborgin og engin sérstök saga eða minjar þar sem heilla ferðamenn mikið nema hræbillegar mafíublokkir þyki spennandi sýn.

Helstu merkishverfi og götur eru:

    • Via Veneto – Þessi mikla gata og nálægar götur hafa tekið töluverðum breytingum í tímans rás þó strangt til tekið tilheyri hún gömlu Róm. Þarna má finna mörg nýtískuhótelin og dýrar verslanir og margar byggingar þarna hafa verið gerðar upp annaðhvort veglegar en áður var eða alveg frá grunni. Á þetta við um Quirinale, Treví, Castro Pretorio og Repubblica hverfin líka.
    • Gamla borgin – Þetta er Róm miðaldarinnar og endurreisnartímans með glæsilegum torgum, kirkjum og þröngum sundum og götum. Hér er hið stórkostlega Pantheon og hverfi á borð við Navona, Campo de´Fiori og Gyðingahverfið.
    • Vatíkanið – Páfinn og Péturskirkjan skipa sinn sess í sögunni.
    • Hringleikahúsið – Hjarta Rómar til forna er við hringleikhúsið Colosseo. Skammt frá eru rústir torga Rómar til forna. Dásamlegt hverfi til skoðunar og íhugunar.
    • Norðurhlutinn – Hér hefur nokkur nútímavæðing átt sér stað en hér má líka finna perlur eins og Spænsku tröppurnar, hinn mikla og fallega garð Borghese og Parioli og Salario lúxushverfin.
    • Trastevere – Suður af Vatikaninu er þetta skemmtilega hverfi sem þessar stundir gengur í endurnýjun lífdaga.
    • Aventino – Nokkuð frá gamla borgarhlutanum er þetta forvitnilega hverfi sem lumar á ýmsu skemmtilegu og þá sérstaklega matarkyns.
    • Esquilino – Suður af Termini lestarstöðinni má finna góða markaði, kirkjur og torg.

Loftslag og ljúflegheit

Miklum sögum fer að gríðarlegum hitum í Róm yfir sumarmánuðina og allra verst er ástandið í ágúst þegar borgarbúar sjálfir flýja hver sem betur getur. Þá getur hitinn farið nokkuð reglulega í 35 stig í forsælu og fjölmargar smærri verslanir loka. Veturinn er jafnan mildur og afar sjaldgæft að hér snjói þó föl sjáist reglulega í fjöllum.

Snöggsoðin sagan

Saga Rómar spannar 2500 ár eða svo en í upphafi var Róm ekki annað en lítið og aumingjalegt sveitaþorp. Saga borgarinnar er löng og flókin en þjóðsagan segir að hinir goðsagnakenndu tvíburabræður Rómulus og Remus sem skildir voru eftir sem ungabörn við ánna Tíber hafi verið þeir fyrstu er hér settust að.

Sökum nálægðar við Tíber og þar sem bærinn var miðsvæðis tók ekki langan tíma að fjölga hér fólki og varð borgin snemma viðskiptamiðstöð héraðsins. Stóð upprunalega þorpið á þeim stað sem sjá má rústir rómverska torgsins.

Vegur borgarinnar óx jafnt og þétt og náði hámarki þegar Rómverjar urðu stórveldi í heiminum en þá þekkti allur heimurinn þessa moldríku og glæsilegu borg. Jafnvel eftir fall rómverska heimsveldisins stóð Róm undir nafni sem stórborg. Í kjölf þess óx vegur hennar á ný sem miðstöð trúaðra og hér héldu allir helstu pólitíkusar sig öllum stundum. Smám saman varð biskupinn í Róm að Páfanum og þing landsins og síðar Papalríkjanna haldin hér.

Róm tók breytingum á Endurreisnartímanum eins og aðrar ítalskar borgir. Torg og stræti tóku breytingum og byggingar voru skreyttar eins og enginn væri morgundagurinn. Basilíka heilags Péturs og Sixtínska kapellan voru meðal annars byggðar á þessum tíma til að Róm yrði nú ekki síðri í byggingarlist en aðrar ítalskar borgir. 1870 varð Róm höfuðborg hins ítalska konungdæmis sem þá ríkti og er það enn þann dag í dag.

Til og frá

Tveir alþjóðaflugvellir eru í nágrenni Rómar. Leonardo da Vinci/Fiumicino flugvöllurinn er aðalflugvöllur borgarinnnar meðan Ciampino er mun smærri völlur og mest notaður af lágfargjaldaflugfélögum.

Leonardo da Vinci / Fiumicino flugvöllur

Þessi er tiltölulega nýr og góður flugvöllur og í raun í útjaðri borgarinnar svo skutl inn í miðborg tekur merkilega skamman tíma miðað við hversu dreifð Róm er.

Sé lent eða flogið frá Fiumicino er einfaldast að taka lestir inn í miðborgina. Tvær slíkar ganga reglulega milli flugvallarinar og Termini sem er aðallestarstöð Rómar. Svokallaðar Leonardo Express fara frá vellinum á 30 mínútna fresti milli 6 á morgnana til 23 á kvöldin. Far aðra leiðina kostar 1900 krónur en frítt er fyrir börn yngri en tólf ára í fylgd með fullorðnum. Hægt er að kaupa miða á netinu á heimasíðu Trenitalia ellegar á stöðinni við brottför. Stimpla þarf alla miða sem keyptir eru í stöðinni áður en farið er um borð. Lestin er 30 mínútur á leiðinni.

Önnur eldri og hægfarari lest stoppar einnig á flugvellinum. Metropolitan FM1 lestin fer að Termini stöðinni og stoppar hún í þremur hverfum borgarinnar við jarðlestastöðvar. Sé engin þörf að fara til Termini er þessi kostur fínn þó aðeins meira sé fyrir haft. Kostar miðinn líka helmingi minna, 950 krónur, plús 120 krónur fyrir miða með jarðlestunum sé förinni haldið áfram. Lestin stoppar í Trastevere, Tiburtina, Fara Sabina, Poggio Mirteto og Orte. Frá jarðlestastöðinni í Tiburtina er auðvelt að komast leiðar sinnar að flestum hótelum. Sjá jarðlestakort undir samgöngur.

Leigubílar eru lítið eitt fljótari í ferðum eða rétt rúmar 20 mínútur í miðborgina. Allir löglegir leigubílar á Rómarsvæðinu eru hvítir. Fræðilega séð á að vera fast 7000 króna leigubílagjald frá flugvellinum inn í borgina en reynsla Fararheill.is er að fæstir bílstjórar taka það í mál og fáir standa í þrasi þess vegna eftir langt flug. Gera skal ráð fyrir 7000 krónum að lágmarki plús 150 krónum í viðbót fyrir hverja tösku.

Það ganga engir strætisvagnar frá Fiumicino

Rútuþjónusta sem lengi var í boði beint til Termini er það ekki lengur. Hins vegar ganga rútur frá vellinum sem stoppa á nokkrum stöðum í borginni áður en lengra er haldið. Það er ódýrasta leiðin inn í bæinn að greiða 180 krónur með rútu að fyrstu neðanjarðarstöð og taka slíka þaðan fyrir 120 krónur. En það er nokkuð vesen og rúturnar ganga nokkuð óreglulega til og frá. Þá er þessi leið ekki vænleg nema góð þekking sé á neðanjarðarkerfinu og borginni.

Ciampino flugvöllur

Þessi sveitavöllur er kominn til ára sinna og til stóð um tíma að jafna völlinn alveg við jörðu. Með tilkomu lágfargjaldarflugfélaganna var hætt við það og notast nú velflest slík flugfélög við Ciampino. Hann er aðeins lengra í burtu nálægt fjallahéraðinu Frascati. Varast skal að vera þarna á ferð mjög seint. Flugvöllurinn lokar á miðnætti og opnar ekki aftur fyrr en um 04:30.

Engar lestir ganga beint á völlinn en sé nenna eða blankheit er hægt að taka lest að Giovane Battista stöðinni og þaðan fer skutla og léttlest á 30 mínútna fresti að flugvallarbyggingunni. Eru fimm mínútur á milli. Hafa skal í huga að léttlestin gengur aðeins yfir hádaginn og eru möguleikarnir á kvöldin nánast eingöngu rútur eða leigubílar.

Flugrútur ganga líka milli Ciampino og Termini stöðvar. Terravision kallast eitt þeirra fyrirtækja. Greiða þarf 1600 krónur fyrir farið aðra leiðina. Skoða heimasíðu þeirra áður en lagt er í hann þar sem þeir bjóða reglulega upp á tilboð.

Leigubílar eru hér líka og strangt til tekið er fast verð frá Ciampino líka.

Samgöngur og skottúrar

Ritstjórn Fararheill tekur hattinn ofan fyrir hverjum þeim er dug hefur til að takast á við umferðina í Róm undir stýri. Ekki að það sé neitt hættulegra en í öðrum stórborgum en traffíkin er ægileg, mengun áþreifanleg og sú árátta heimamanna að halda að flautan geri alla hluti í heiminum betri gerir hvern aðkomumann vitlausan á fimm mínútum. Þess utan missir ferðamaður á bíl af þeim anda og stemmningu sem í borginni er.

Sé vilji til að þvælast um göturnar eru vespur miklu betri kostur en bílar. Á þeim komast menn mun fljótar yfir og sleppa við þær eilífu tafir sem eru hér á álagsgötum. Fara skal með gát samt þar sem bílstjórar bera ekki virðingu fyrir neinu nema sjálfum sér og víkja alla jafna ekki auðveldlega fyrir vespum. Hægt er að leigja vespur í Róm víða og kostnaðurinn kringum 6000 krónur fyrir sólarhringinn.

Leigubílar er einn kostur en frekar dýrir. Þeir aka allir eftir mælum og bíla má ávallt finna í grennd við torg borgarinnar sem engin skortur er á. Venjan er ekki að flagga bíla hér og margir munu ekki stoppa sé það gert. Gróflega má gera ráð fyrir að rúntur með leigubíl innan borgarmarkanna ætti ekki að kosta meira en 2200 krónur í versta falli.

Jarðlestin er góður kostur í Róm. Metropolitana heitir kerfið og ganga lestir reglulega allan daginn á sjö til níu mínútna fresti. Stakt far kostar 190 krónur og nægir það langflestum sem stoppa í nokkra daga í borginni þó til séu margvísleg afsláttarkort til lengri tíma. Miði sem gildir í sólarhring er einnig vænlegur ef skoða á margt á einum degi en hann kostar 850 krónur. Leiðakerfið hér.

Allra best er þó að þvælast um Róm fótgangandi. Eigi gamla klisjan að sagan sé við hvert fótmál einhvers staðar við þá er það hér. Það er líka eina leiðin til að láta Róm koma sér á óvart með litlum frábærum en földum verslunum í götum sem eru þrengri en nýjustu tískugallabuxurnar. Það er nefninlega ótrúlega mikið að sjá í borginni sem ekki stendur stafur um í ferðahandbókum og slíkt finnst aðeins á röltinu. Séu einhverjir að mikla fyrir sér að rölta má geta þess að aðeins eru 2,5 kílómetrar milli Spænsku trappanna og Coloseum leikvangsins en á því svæði eru mörg helstu tákn og minjar borgarinnar.

Strætisvagnar eru annar góður og ódýr valkostur til að þvælast um Róm. Reyndar eiga þeir það til að lenda í umferðarteppum en slíkt er þó fremur sjaldgæft enda sérreinar víða fyrir vagnana. Búast má við að þröng sé á þingi enda nota borgarbúar vagnana mikil sjálfir. Atac heitir samgöngufyrirtæki borgarinnar og finna má leiðakort á heimsíðunni hér.

Til umhugsunar: Tvær strætóleiðir eru sérstaklega góðar. Númer 40 fer milli Termini stöðvar gegnum gömlu borgina og að Vatíkaninu. Þá er 217 sniðugur kostur en það er smærri rafmagnsvagn sem fer eingöngu um gömlu borgina. Hafa skal einnig í huga að þegar jarðlestakerfið lokar klukkan 23:30 hefja næturvagnar að ganga í borginni.

Rauðu tveggja hæða túristvagnarnir finnast hér eins og í flestum öðrum borgum Evrópu. Hægt er að hoppa úr og í meðan miðinn gildir og er það þjóðráð fyrir þá sem ekki treysta sér í göngutúra. Um nokkrar leiðir er að ræða eins og sjá má hér. Ódýrasti miðinn kostar 3200 krónur.

Nokkrir sporvagnar ganga um Róm en þeir fara þó aðallega um í úthverfum. Þó eru nokkrir sem renna framhjá Hringleikahúsinu, Vatíkaninu og inn í Trastevere hverfið. Leiðakort hér.

Að síðustu er jarðlestakerfið Rómar gott til brúksins og sennilega fljótlegasta leiðin milli tveggja punkta á háannatímum. Það getur þó verið ansi troðið þar líka og vasaþjófar nýta sér það eftir bestu getu. Leiðakerfi þess hér.

Söfn og sjónarspil

Róm er sennilega ein fárra borga heimsins þar sem raunverulega er hægt að fullyrða að öll gamla borgin sé eitt opið safn. Rústir frá rómverska heimsveldisins standa enn og þótt þess sé vandlega gætt nú til dags að aðgengi sé takmarkað til að vernda það sem eftir stendur er hægt að eyða heilum degi og ímynda sér hvernig lífið var þegar misspilltir rómverskir stjórnmálamenn og herforingjar réðu hér ríkjum og daglega var föngum í löngum röðum hent inn á leikvang Colosseo til að berjast fyrir lífi sínu. Standi maður nógu lengi við er vel hægt að ímynda sér allt þetta.

Aðalatriðið er sennilega að láta sér ekki nægja að fara rúnt með leiðsögumönnum heldur umsvifalaust taka skrefin sjálfur og villast góða stund í gamla borgarhlutanum. Borgin úir og grúir af minjum sem þykja ekki nógu merkilegar fyrir ferðamannahandbækurnar en aldrei má gleyma að fegurðin er í augum sjáandans og það sem einum þykir ómerkilegra þykir öðrum stórmerkilegt.

Til umhugsunar: Róm er sneisafull af fyrsta flokks merkilegum söfnum og minjum og þarf að hafa sig allan við að skoða allt sem forvitnilegt er þar. Sé verið að ferðast á sem ódýrastan máta er ráð að mæta til Rómar þá einu viku ársins sem frítt er í öll söfn og garða sem tilheyra ítalska ríkinu. Ein slík vika er haldin ár hvert og kallast Settimana dei Beni Culturale. Er hún ekki alltaf sömu vikuna en á þessari heimasíðu á ítölsku má finna upplýsingar um dagsetningu.

> Baðhús Díókletusar (Terme di Diocleziano) –  Gengt lestarstöð borgarinnar er að finna byggingu mikla sem eitt sinn hýsti stærstu baðhús veraldar. Díókletus keisari var fúll maður að eðlisfari og þótt aldrei kæmi sá til Rómar vildi hann ekki minni maður vera en fyrrum keisarar sem byggt höfðu dýrindis baðhús víða um borgina. Tíu þúsund manns voru neyddir í þrælkunarvinnu og byggðu þetta baðhús sem enn er stórkostlegt að skoða. Ekkert var til sparað og þó enginn baði sig þar lengur er búið að fylla króka og kima af glæsilegum listaverkum. Klaustrið við hlið safnsins er talið hafa verið byggt af Michaelangelo. Opið þriðjudaga til laugardaga milli 9 og 19:30. Jarðlest að Termini. Aðgangseyrir 1900 krónur.

> Kapitolín safnið (Musei Capitolini) – Stórmerkilegt safn verka, skúlptúra, frá tíma kenndum við Kapitolín. Mikið að sjá og mörg afbragðs verk hér en sum þeirra hafa varðsveist illa og látið á sjá. Safn þetta er enn merkilegra fyrir þær sakir að það er til húsa í gömlu orkuveri þar sem gamalt járn og stál kallast á við listina með skemmtilegum hætti. Það stendur við Via Ostiense. Jarðlest að Garbatella. Opið þri- lau milli 9 og 19. Aðgangur 1100 krónur. Heimasíðan.

> Borghese safnið (Galleria Borghese) – Staðsett í Borghese garðinum sem einn og sér er þess virði að heimsækja og stendur safnið þar tignarlega fyrir allra augum. Þrjár hæðir af verkum og skúlptúrum sem kardínálinn Borghese sankaði að sér á sínum tíma en mörg fræg verk eru þar á meðal. Í garðinum sjálfum er auk þess töluvert líf og indælt að losna við ys og þys borgarinnar augnablik innan garðsins. Jarðlest að Spagna og þaðan fimm mínútna göngutúr upp í móti áður en komið er að garðinum. Opið 8:30 til 17:30 þriðju- til laugardaga. Aðgangur 1500 krónur. Heimasíðan.

> Spada safnið (Galleria Spada) – Annað merkilegt listasafn sem einnig tengist nafni Borghese fjölskyldunnar. Safnið er staðsett í einni af byggingum þeirrar ágætu ættar og það ekki í minni kantinum. Fjöldi verka til sýnis sem flestir listunnendur ættu að sjá minnst einu sinni. Strætisvagnar 46,56 eða 62 að Via Guilia. Opið þriðju- til sunnudaga milli 9:30 og 18:30.  Aðgangur 860 krónur. Heimasíðan.

> Feneyjarhöllin (Museo Nazionale del Palazzo di Venezia) – Enn eitt stórglæsilegt listasafnið með stórkostlegum og vel þekktum verkum aðallega frá tímum Rómverja. Hýst í höll mikilli og fallegri sem kennd er við Feneyjar og gnæfir yfir umhverfi sitt við Via del Plebiscito. Hér eru jafnan fleiri en ein sýning í gangi og hafa skal í huga að tveir inngangar eru í höllina. Miðar seldir báðum megin. Strætisvagnar 40, 63 eða 70 að Via del Plebiscito. Opið þriðju- til laugardaga milli 8:30 og 17:30. Aðgangur 600 krónur. Heimasíðan.

> Fornminjasafnið (Galleria Nazional d´Arte Antica) – Annar helmingur Fornminjasafnsins er staðsettur í Berberini höllinni sem staðsett er á einni af sjö hæðum Rómar með ágætt útsýni til borgarinnar. Hinn helmingurinn finnst í höll Corsini í miðborginni. Hér er samt betri hlutinn; glæsilegir skúlptúrar og styttur frá etrúskan tímabilinu og einstakar flísar sem lýsa flóðum í ánni Níl og eru ómetanlegar. Jarðlest að Barberini og fylgja þaðan skiltum að Via delle Quattro Fontane. Opið alla daga nema mánudaga milli 8:30 og 19:30. Aðgangseyrir 1100 krónur. Heimasíðan.

> Etrúska þjóðarsafnið (Museo Nazionale di Villa Giulia) – Etrúskar hét þjóðflokkur sá er kallaði þennan hluta Ítalíu heimili áður en Rómverjar komu til sögunnar. Mikil er til af munum frá tíma þeirra og hér á þessu safni má finna allt það merkilegasta sem fundist hefur. Tilkomumikið safn og stórt. Jarðlest að Flaminio. Opið alla daga nema mánudaga milli 8:30 og 19:30. Aðgangur 800 krónur.

> Keats/Shelley safnið (Keats/Shelley House) – Ljóðskáldið fræga John Keats eyddi ævidögum sínum í íbúð í  næsta nágrenni við Spænsku tröppurnar og þar lest hann aðeins 25 ára gamall. Heimili hans þar hefur verið breytt í safn og þar er margt fróðlegra muna margra úr eigum fleiri rómantískra skálda en Keats. Munir og málverk sem voru í eigu Byrons lávarðar, Percy Shelley og Wordsworth svo einhverjir séu nefndir. Fínt að kíkja við þegar tekið er strikið að Spænsku tröppunum. Jarðlest að Spagna. Opið virka daga milli 9 og 18 en lokað klukkustund í hádeginu. Frá 11 – 18 á laugardögum. Aðgangur 700 krónur. Heimasíðan.

> Napóleónssafnið (Museo Napoleonico) –  Hrífandi safn fyrir sögufíkla en hér er gerð ítarleg grein fyrir öllum orrustum Napóleóns á ítalskri grundu í máli og myndum. Strætisvagnar 30, 40 og 71 að Piazza di Ponte Umberto. Opið 9 – 19 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 550 krónur. Heimasíðan.

> Pastasafnið (Museo Nazionale delle Pasta Alimentari) – Það hljómar kannski kjánalega en Róm er vagga þeirrar vinsælu fæðu sem þekkt er um heim allan sem pasta. Hér fá gestir að sjá og vita allt sem þarf um pasta auk kennslu í framleiðsla á pasta ýmis konar. Skemmtilegt safn. Jarðlest að Barberini. Opið 9:30 – 17:30 alla daga. Aðgangur 1800 krónur. Heimasíðan.

> Söfn Vatíkansins (Musei Vaticano) – Það er óumdeilanlega hér sem allra besta safn, eða söfn, er að finna í Róm og þó töluvert víðar væri leitað. Kílómetrar af göngum og sölum sem hýsa gersemar frá öllum mögulegum tímum og ótímum. Málverk meistaranna, veggmyndir og loftmyndir eftir frægustu listamenn sögunnar, skúlptúrar og líkneski eftir færustu handverksmenn gegnum tímanna og margt fleira að auki. Hér eru hinn heimsfrægi Salur Rafaels með stórkostlegum verkum og allir taka andann á lofti þegar þeir líta augum Sixtínsku kapellu skreyttri list Michelangelo. Listunnendur þurfa tvo daga hér hið minnsta eigi virkilega að skoða djásnin sem ber fyrir augu en hinn hefðbundni áhugasami ferðamaður er aldrei minna en þrjár klukkustundir. Flestir fara sáttir og listfullnægðir út eftir fjóra tíma. Jarðlest að Pietro-Musei Vaticani og tíu mínútna gangur þaðan ellegar strætisvagn númer 46 sem stoppar fyrir utan safnið. Opið alla daga nema sunnudaga milli 10 og 18 en miðasalan lokar kl. 16. Aðgangseyrir 2600 krónur. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Vatíkanssafnið er gríðarstórt og jafnvel sá sem flýtir sér í gegn er vart skemur en rúma klukkustund. Best er að fara með fullan maga og óþreyttur því klifra þarf nokkra stiga og mannfjöldinn sem alltaf er þarna tekur orku eins og ryksuga. Þá er aðeins ein afskaplega mögur sjoppa á allri leiðinni sæki hungur eða þreyta að en sú er bæði dýr og troðin og eini staðurinn á öllum túrnum gegnum safnið þar sem komist verður út undir bert loft.

> Maxxi safnið (Maxxi Museo Nazionale delle Arti del XXI Secolo) – Nýjasta safn Rómar opnaði í maí 2010 og er fyrsta og eina nýlistasafn landsins sem er sérstaklega styrkt af stjórnvöldum. Safnahúsið er sjón að sjá og sýningar afar forvitnilegar. Jarðlest til Flaminio og labb að Via Guido Reni. Opið 9 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir misjafn eftir sýningum. Heimasíðan.

> Hringleikahúsið (Il Colosseo) – Eitt allra þekktasta bygging veraldar er hið fræga rómverska hringleikahús sem enn stendur að hálfu í miðborg Rómar. Það er stærsta hús sinnar tegundar sem nokkru sinni var byggt á tímum Rómverja en bygging þess hófst árið 70. Þar var pláss fyrir 50 þúsund manns sem þangað sóttu í gríð og erg enda ávallt eitthvað um að vera til að skemmta borgarbúum. Hér er alltaf krökkt af fólki og raðir geta orðið ægilegar yfir háannatímann. Vænlegast er að mæta annaðhvort mjög snemma, fyrir klukkan 8, eða frekar seint, eftir 17, því þá hafa rúturnar ferjað langflesta sem eru í skipulegum ferðum annað. Hringleikahúsið er opið milli 9 og 19:30 yfir sumartímann en skemur þess utan. Miðar eru seldir við innganginn og eru tvær til þrjár klukkustundir nóg til að sjá og njóta þess sem þar er. Miðaverð er 2100 krónur fyrir einstakling. Heimasíðan.

> Rómartorgið (Foro Romano) – Örskammt frá Hringleikahúsinu eru rústir þess sem eitt sinn var miðdepill hins rómverska heimsveldis. Rómartorgið, Forum, var miðbær gömlu Rómar og stóð mitt á milli Palatín hæðarinnar og Kapitolín hæðar. Þar voru, og eru að einhverju leyti, elstu og merkustu stofnanir gömlu Rómar. Þar voru einnig fyrstu hofin og musterin sem reist voru á tímum forn Rómverja. Hallir æðstu ráðamanna, formlegt ráðhús og allar þær stofnanir aðrar sem Rómverjar gáfu heiminum voru líka á þessum merkilega bletti. Fornleifafræðingar hafa unnið þarna að heita linnulaust í tugi ára og eru enn að og enn þann dag í dag finnast þar menjar. Hægt er að fara fótgangandi um hluta svæðisins og er sannarlega mælt með því seinnipart dags þegar ferðamannaskararnir eru minni en yfir hádaginn og sólin skín ekki jafn grimmilega. Þá er ótrúleg upplifun að ganga um og fara aftur í huganum hundruðir ára og láta hugann reika. Jarðlest að Colosseo. Frír aðgangur.

> Vatíkanið (Stato della Città del Vaticano) – Ríki i ríkinu en ekkert vegabréfavesen. Enginn kemur til Rómar og sækir ekki þennan allra heilagasta stað í hugum kaþólskra. Byggingarnar og umhverfið allt er sannarlega tilkomumikið og tvennt ólíkt að vera þarna í eigin persónu og sjá myndir í sjónvarpi eða kvikmyndum. Múgur og margmenni eru á Péturstorginu öllum stundum og langar raðir til að skoða Péturskirkjuna, Basilica di San Pietro, sem er eini staðurinn, fyrir utan söfn Vatíkansins, sem hægt er að skoða hér án þess að óska fyrirfram eftir því. Kirkjan er jafn tilkomumikil og annað hér og sannarlega yndislegur staður til íhugunar fyrir þá sem trúaðir eru og ekki mikið síður fyrir aðra. Þó getur ströng öryggisgæsla tafið verulega fyrir og á allra verstu tímum getur bið eftir að fá að skoða Péturskirkjuna orðið rúmlega klukkustund. Messur fara þar fram alla sunnudaga og páfi messar úr glugga sínum yfir torginu alla sunnudaga á hádegi. Hægt er einnig að skoða sérstaklega turn Péturskirkjunnar en þangað er sérinngangur hægra megin við torgið. Er það opið milli 8:45 og 17:45. Kostar það 2600 krónur. Jarðlest að Pietro-Musei Vaticano og tíu mínútna gangur þaðan. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Gæta skal þess að klæðast alklæðnaði til að komast inn. Berar axlir og berir fótleggir þýðir undantekningarlaust að fólki er vísað frá. Standi hugur til að skoða bókasafn Vatíkansins, glæsilega garða þess eða katakomburnar undir kirkjunni þarf að óska sérstaklega eftir því skriflega fyrirfram. Allar frekari upplýsingar á vef Vatíkansins.

> Spænsku þrepin (Scalinata della Trinità dei Monti) – Lengsti og breiðasti tröppugangur Evrópu gengur undir þessu nafni sem dregur enskt nafn sitt af torginu fyrir neðan, Piazza di Spagna, en ítalskt nafn sitt af kirkjunni sem gnæfir yfir þrepin 138. Skemmtilegur staður mitt í lúxus verslunarhverfi Rómar og iðandi mannlíf þarna öllum stundum. Við hlið kirkjunnar er dýrasta hótel Rómar, hið heimsfræga Hassler hótel. Haldi fólk áfram göngu upp á við liggur leiðin beint að Villa Borghese garðinum skemmtilega.

> Trevi brunnurinn (Fontana di Trevi) – Hinn heimsþekkti og glæsilegi Trevi brunnur er stærstur sinnar tegundar í Róm en brunnurinn er allur í barrokkstíl. Skúlptúrinn er sannarlega glæsilegur og fegurðin hvað mest í smáatriðunum. Hér sem annar staðar í Róm er krökkt af fólki frá morgni og vel fram eftir kvöldum og jafnvel nóttum og getur almennur troðningur þess vegna skyggt á gleðina. Á hæðina er brunnurinn tæpir 26 metrar og tæplega 20 metra breiður. Algengur misskilningur er að það boði gæfu að henda pening í brunninn. Upprunalega boðaði það þó aðeins að viðkomandi ætti eftir að snúa aftur til Rómar á lífsleiðinni. Um það bil 500 þúsund krónum er hent í brunninn daglega og er féð notað, að því er borgaryfirvöld segja, til að niðurgreiða mat fyrir þurfandi fólk.

> Altari föðurlandsins (Altare della Patria) – Sé áhugi að sjá hvað hægt er að útbúa með glæsilegum hvítum marmara í tonnatali þá er þetta staðurinn. Um er að ræða minnismerki um fyrsta konung sameinaðrar Ítalíu mitt á milli Palentínuhæðar og Piazza Venezia. Að verkinu komu fjölmargir af bestu steinhöggvurum Ítalíu snemma á 19. öld. Mannvirkið sjálft er fagurlega skreytt og á neðstu hæðinni er safn um sameiningu Ítalíu. Þarna er líka grafhýsi hins óþekkta hermanns og þar er raunverulega lík óþekkts hermanns grafið.

> Sant´Angelo kastalinn (Castel di Sant´Angelo) – Þetta vígalega virki við Tíber ánna er einnig þekkt sem grafhýsi Hadrians keisara og er risastór hringlaga bygging og ein af fáum sem rísa nokkuð upp úr lágri byggð borgarinnar. Það var einnig notað sem fangelsi um tíma enda vart til rammgerðari bygging í veröldinni. Hnausþykkir veggirnir héldu þó ekki innrásarherjum alfarið frá og allar leifar og minjar af grafhýsinu og fagurlega skreyttum veggjunum eru að mestu horfin. Byggingin er safn í dag.

> Katakombur heilags Callixtusar (Catacombe di San Callisto) – Óhætt er að segja að í katakombuheimum eru þessar ákveðnum katakombur fremstar meðal jafningja hvað Róm varðar. Fyrir vikið er þetta líka langsamlega vinsælasta katakombuheimsókn ferðamanna og túr sá er boðið er uppá er slepjulegur í meira lagi. Það breytir ekki því að göngin eða grafhýsin eru kostuleg enda var þetta reist sérstaklega fyrir kristna menn og hér hvíla bein einna 16 páfa. Ótrúlegt að ráfa hér um enda göngin 20 kílómetra löng með fjölmörgum hliðarstígum og útskotum og ná 20 metra niður á við. Strætisvagn númer 18 að Via Appia Antica. Opið þriðju- til fimmtudaga milli 8:30 og 12 og aftur milli 14:30 og 17:30. Aðgangur 900 krónur. Heimasíðan.

> Híbýli Hadríans (Villa Adriana) – Strangt til tekið er þetta alls ekki í Róm heldur fyrir neðan bæinn Tivoli sem er í 40 mínútna fjarlægð frá Rómarborg. Engu að síður er þetta of stutt til að sleppa þegar dvalist er í borginni enda ein merkilegasta landareign sem fyrirfinnst. Hér reisti Hadrían keisari sér hús og garð á 2. öld og það sem hann kallaði hús og garð gætu aðrir freistast til að kalla heilan bæ. Ekkert var til sparað hér og villan og risastór garðurinn hafa staðist tímans tönn frábærlega. Hadrían sjálfur var unaðssemdamaður mikill, fór víða og það merkilega sem hann sá í heiminum lét hann endurgera hér í garði sínum. Sem dæmi má finna hér hans útleggingu á helvíti þó engin sönnun sé fyrir að karlinn hafi komið þangað. Heill dagur hér er vel þess virði og í raun lágmark ætli menn sér að njóta en ekki rúlla röflandi í gegn eins og verstu Bandaríkjamenn. Ómissandi stopp. Jarðlest til Ponte Mammolo og þaðan rútur til bæjarins Tivoli. Þaðan skal taka strætisvagn 4 að þessu undri sem er á Heimsminjskrá Sameinuðu þjóðanna. Vesenið er vel þess virði. Opið 9 – 19:30 alla daga. Aðgangseyrir 1200 krónur. Heimasíðan.

> Panþeón (Pantheon) – Sé einhver á þeirri skoðun að saga geti ekki verið merkileg ætti sá hinn sami að velta fyrir sér hvernig standi á því að hér í Róm í mekka kaþólskra manna er eitt fyrsta heiðna hofið sem sögur fara af. Heiðið að því leytinu til að hofið var ætlað öllu fólki af öllum trúarbrögðum og jafnvel heiðingjar voru hér velkomnir. Byggingin sjálf er stórvirki og má lengi velta fyrir sér ævintýramennskunni að byggja slíkt hof með hvolfþaki hundrað árum fyrir Krist. Ekki síst fyrir þær sakir að tæki og tól voru engin nema hendur þræla og ekki síður merkilegt að engar burðarstoðir halda hnausþykku hvolfinu uppi og steypa þess tíma var ekki styrkt að neinu leyti. Ekki sér á þakinu tvö þúsund árum eftir byggingu þess. Engin bygging önnur frá forntímum hefur orðið slíkur áhrifavaldur í byggingalist og tugir frægra bygginga víðs vegar í heiminum eru í raun byggðar á hönnun Panþeón. Jarðlest að Fontana di Tritone. Opið 8.30 – 19 alla daga. Aðgangur frír.

> Farnesina villan (Villa Farnesina) – Hún lætur kannski engin ósköp yfir sér þessi fyrr en inn er komið en hér bjó um tíma ríkasti maður Ítalíu og þótt víðar væri leitað. Sá þurfti eðli málsins samkvæmt að hafa það þokkalega kósí og má með sanni segja að það hafi honum tekist. Villan er í Trastevere hverfinu og án þess að gefa of mikið upp ætti að nægja að segja að ekki minni listamenn en Raphael og Michaelangelo komu að skreytingum innanhúss. Ómissandi stopp. Strætisvagn 23 að Via di Lungara. Opið mánu- til laugardags milli 9 og 13. Aðgangur 900 krónur.

> Navóna torg (Piazza Navona) – Eitt helsta torg Rómar um aldaraðir og afar skemmtilegur staður að hvíla lúin bein eftir borgarrölt. Torgið er töluvert falið og margir rata þangað óvart á rölti sínu. Bekkir og sæti eru víða og þar eru stórglæsilegir gosbrunnar, Fontana dei Quattro Fiumi, í barrokk stíl eftir hinn þekkta Bernini en honum stóð enginn fremri í veröldinni á sínum tíma. Mannlíf hér öllum stundum og vasaþjófar eðlilega . Þá á staðurinn sér mikla sögu. Hér hélt til dæmis ákveðinn Mussolini sínar helstu ræður og ávann sér hylli. Strætisvagn 87.

> Campidoglio torg (Piazza del Campidoglio) – Efst á Kapitolíni hæð er torg eitt fallegt og stórt og það er hér sem ítalska þingið hefur aðsetur sitt. Byggingarnar þrjár við torgið voru allar byggðar eftir teikningum Michaelangelo. Jarðlest að Colosseo og tíu mínútna rölt þaðan.

> Appian vegur (Via Appia Antica) – Ein allra frægasta gata fornra tíma var þessi steinlagði stígur sem náði á sínum tíma frá miðborg Rómar alla leið til þess sem nú er Brindisi bær eða 563 kílómetra alls. Það samsvarar vegalengdinni milli Reykjavíkur og Djúpavogs á Austfjörðum. Það var um þennan veg sem verslun og viðskipti áttu sér helst stað við Róm á sínum tíma. Fallegur gróður er nú víða að finna meðfram veginum og hann er ekki fjölsóttur af ferðamönnum almennt. Þá liggja meðfram honum á stöðum grafhýsi mikilla manna á sínum tíma. Þá var það einnig hér sem Pétur postuli fékk sýn sína frá Jesú Kristi eins og kunnugt er úr biblíunni. Fjölmargt annað merkilegt á þessari leið.

Verslun og viðskipti

Róm er draumaheimur hvað verslun varðar og verðlag, að frátöldum lúxusverslununum, er allbærilegt þrátt fyrir sjúka íslenskra krónu. Verslanir eru mjög víða í borginni og enginn borgarhluti þar sem ekki má rekast á ágætar verslanir.

Að þessu sögðu er aðalverslunarhverfi borgarinnar í og við Via del Corso og Via Condotti. Lúxusverslanir eru reyndar margar við Via Condutti. Ódýrari verslanir má finna í Via del Corso og ekki síður í Via Cola di Rienzo. Gott úrval smárra sérverslana eru í götum útfrá Panþeón. Margar minni og skemmtilegri verslanir má finna í Trastevere hverfinu og þar eru útimarkaðir nokkuð algengir. Merkjavöruverslanir eru víða.

Fyrst og fremst er hægt að gera fín kaup í fatnaði en einnig eru skór og leðurvörur ýmis konar á ágætu verði.

Rómverjar og reyndar Ítalir allir eru ekki ýkja hrifnir af verslunarmiðstöðvum en þær finnast þó hér. Þær eru í útthverfum Rómar og þangað getur verið töluvert mál að komast. Besti kosturinn er að taka leigubíla. Helstar eru:

  • Euroma 2 – Via Cristoforo Colombo. Strætisvagnar 70, 709
  • Porta di Roma – Via Alberto Lionillo. Rúta númer 38 frá Termini stöð að Baseggio.
  • Romaest – Via Collatina. Ferroviaria FM2 lest frá Tiburtino stöðinni að Lunghezza.
  • Parco Leonardo – Via  Portuense. Aðeins komist með leigu- eða bílaleigubílum. Skammt frá Fiumicino flugvelli.
Markaðir eru nokkrir góðir hér og fjölmargir smærri fara fram um hverja helgi. Þeir helstu og bestu eru:
    • Campo de´Fiori – Þessi elsti markaður borgarinnar er staðsettur við torgið Piazza di Campo de´Fiori sem er örskammt frá Piazza  Navona. Matvæli hér fyrirferðamest en einnig leikföng og eldhúsvörur ýmsar. Opinn 7 – 13 alla daga nema sunnudaga.
    • Porta Portese – Þessi stendur við Via Portuense í Trastevere og er eini alvöru flóamarkaður Rómar. Aðeins opinn á sunnudögum milli 6:30 og 14.
    • Mercantino dei Partigiani – Við torgið Piazza dei Partegiani er þessi markaður sem er flóamarkaður í smærri kantinum. Aðeins haldinn fyrsta sunnudag í hverjum mánuði.
    • Underground – Nýjasti markaður Rómar er haldinn á fimm hæðum í bílahúsi við Piazza del Popolo. Meira ferðamannamiðaður en aðrir og verði hærri en á hinum mörkuðum borgarinnar. Opinn fyrsta laugar- og sunnudag í hverjum mánuði.
Að lokum má nefna tvo útsölumarkaði, outlet, fyrir þá allra hörðustu. Báðir eru með bærilegt úrval og ágæt verð en eru töluvert út úr borginni eins og verslunarmiðstöðvarnar. Sá fyrri, Castel Romano, er 20 kílómetra frá borginni og bíll nauðsyn til að komast þangað. Hundrað verslanir og góður afsláttur af ýmsum vörum. Hinn heitir Valmontone og er 50 kílómetra frá borginni á leiðinni til Napolí. Ferðin er samt þess virði enda bærinn sjálfur sem ber sama nafn yndislegur.

Matur og mjöður

Enginn þarf að fara í grafgötur með snilli Ítala í eldhúsinu og vænlegir veitingastaðir hér fleiri en flísar í fjölum. Engin þörf er að elta uppi fimm stjörnu staði hér því hér endist enginn veitingamaður sem ekki býður fyrsta flokks mat og með því. Hér gildir það sama og í öllum öðrum löndum að sækja þá staði sem heimamenn sækja sjálfur og þá verður enginn fyrir vonbrigðum.

Enginn fer frá Róm sáttur án þess að fá sér gelateria, ítalskan ís, og slíkar búðir má finna víða um borg í öllum hverfum.

Trastevere hverfið er sérstaklega borðleggjandi í þessum efnum og aragrúi veitingastaða þar í hinum ýmsu götum. Annar ákaflega skemmtilegur staður til átu er Monte Verde Vecchio hverfið en það er íbúðahverfi sem ferðamenn alla jafna þvælast ekki mikið inn í. Þar er ákaflega gott úrval fínna staða. Hverfið er ennfremur hæsti punkturinn í Róm.

Til umhugsunar: Í guðanna bænum ekki fara frá Róm án þess að bragða gelateria, ítalskan ís, enda ekki heimsfrægur fyrir ekki neitt. Þá er heldur ekki tilviljun að ítalskar pizzur og kaffi eru jafn vinsæl og raun ber vitni. Léleg pizza í Róm bragðast fimmfalt betur en besta pizza á ylhýra fróni.

Barir og drykkjuholur í Róm er engu síðri en annars staðar og að mörgu leyti betri enda áfengi á verði sem flestum Íslendingum þætti hlægilegt ef frá eru taldir þingmenn Vinstri grænna. Staðirnir skipta hundruðum sem bragð er að og sama gildir um næturklúbba sem eru margir í borginni. Vænlegustu svæðin fyrir smá upplyftingu að kvöldi til eru Testaccio og Piazza de´Fiori. Báðir eru venjulega fullir af skemmtilegu fólki að njóta lífsins. Fyrir unga fólkið er háskólasvæðið í San Lorenzo skammt frá Termini lestarstöðinni pakkað af hressu liði. Á sama svæði, nálægt Santa Maria dómkirkjunni, er töluvert af enskum og írskum börum ef það heillar.

Líf og limir

Á vestrænan mælikvarða eru þjófar og svindlarar hér fleiri en gengur og gerist. Vasaþjófnaður er svo algengur að lögregla hefur formlega hætt að taka niður kærur vegna þess. Í besta falli má vart búast við mikilli aðstoð í slíkum tilfellum. Binda skal myndavélar vel um líkamann og helst geyma verðmæti á hótelinu eða í peningabelti. Vasaþjófar hér eru snillingar og alveg sama hvaða vasa fólk telur verðmæti sín örugg í; það reynist oft á tíðum rangt.

Ofbeldisglæpir eru sjaldgæfir en fyrir kemur að átök brjótast út og þá oftast nær í kringum stórleiki í knattspyrnu. Sérstaklega á það við þegar lið Napolí keppir í borginni en aðdáendur þeirra eru þekktir fyrir allt annað en eðlilega hegðun. Breyta skal um stefnu hið snarast rekist fólk á slíka hópa.

Heillandi konur, sérstaklega þær yngri, verða að gera sér að góðu að fá skot og skeyti frá ítölskum karlmönnum af og til á götum úti. Þykir það ekkert tiltökumál hjá innfæddum og ítalskar konur kunna oft vel að meta slíkt. Leiða skal slíkt hjá sér og það nægir yfirleitt til.

Ýmsir svindlarar reyna ákaft að blekkja ferðafólk. Sumir ganga svo langt að klæðast búningi lögreglu og fara svo fram á greiðslu fyrir eitthvað fáránlegt. Í slíkum tilfellum nægir yfirleitt að fara fram á að sjá skilríki. Hér gildir hið fornkveðna að sé eitthvað of gott til að vera satt þá er það raunin.