Poreč er ólíkur nágrannabæjum sínum við strönd Adríahafsins að hér hefur ferðamennska tekið við af útgerð sem höfuðatvinnuvegur heimamanna. Kannski sökum stærðar sinna hafa meðal annarra Ítalir mikið sótt hingað síðastliðin ár en bærinn telur um átta þúsund íbúa alls.

Poreč er einnig sérstakur fyrir þær sakir að þetta var fyrsti bærinn á þessum slóðum til að beygja sig undir yfirráð Feneyinga þegar það borgríki var á hátindinum. Af því leiðir að ýmislegt í bænum hefur feneyskt yfirbragð sem seint verður talið til lasta.

Bærinn stendur á litlum skaga og ásýnd gamla bæjarhlutans hefur ekkert breyst um langa hríð. Hefur bærinn fengið mýmargar viðurkenningar fyrir hreinlæti af hálfu króatískra ferðamálayfirvalda.

Bærinn státar af hinni þekktu Euphrasian kirkju sem er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Ekki lætur hún mikið yfir sér utanfrá en freskur og flísalistaverk innan í henni eru afar falleg.

Töluvert úrval afþreyingar er hér að finna fyrir ferðafólk og er aðeins farið að bera á almennri áreitni gagnvart ferðamanninum. Það er því miður leiðinlegur fylgifiskur fjöldaferðamennsku.