E inhvern tíma litið út um flugvélaglugga og séð vængi vélarinnar sveiflast upp og niður hraðar en Samherjamenn koma peningum undan íslenskum sköttum?
Jamm, ýmislegt miður skemmtilegt kemur upp í hugann við þær aðstæður en raunin er sú að bæði flugvélaframleiðendur og flugmenn vita upp á hár hvað vél þolir og hvað ekki. Vélum er fremur snúið við, leiðakerfi breytt eða beinlínis hætt við flug ef vinda- og veðurspá gerir ráð fyrir hættulegum sviptivindum á leiðinni.
Hnútur í maga
Í huga okkar farþega er ókyrrð alltaf ömurleg. Hvort sem hún er lítil lengi eða mikil í skamman tíma þá er yfirleitt hnútur í maga langflestra farþega hvort sem þeir eru flughræddir eður ei.
Sú hræðsla ósköp eðlileg. Við þekkjum fæst þolmörk hinna mismunandi tegunda flugvéla. Við þekkjum ekki hvort flugmennirnir eru kældustu menn á jörð eða stressboltar dauðans. Við vitum ekki hvort við komumst út í tæka tíð ef svo illa skyldi fara að nauðlending tækist vel og hvað eigum við að gera ef nauðlending tekst vel en rellan úti á miðju ballarhafi í ólgusjó?
Eðlileg hræðslan skýrist fyrst og fremst af því að í hvert sinn sem þú flýgur ertu að leggja líf og limi í hendur einhverra tveggja eða þriggja einstaklinga sem þú veist ekkert um. Þeir gætu verið fyrsta flokks og bjargað öllu við hinar verstu aðstæður en þeir gætu líka verið handónýtir og flogið rakleitt á fjall við minnsta hanagal. Og þú bjargarlaus með öllu hvort sem þú ert verkfræðingur eða bílasali.
Þrjá tegundir ókyrrðar
Heiðkvika, vermikvika og aflkvika. Það formleg íslensk heiti yfir vinda sem geta valdið ókyrrð í lofti fyrir flugför. Fyrir okkur leikmenn er þó nær að gefa ókyrrð nöfnin lítil, miðlungs, mikil eða ógnvænleg.
Allir sem flogið hafa þekkja litla ókyrrð. Sú finnst undantekningarlaust í öllum flugferðum en er ekki nægilega mikil til að vekja þig upp af góðum blundi. Miðlungs mikil ókyrrð er líka töluvert algeng og ekki síst til og frá Íslandi að vetrarlagi. Vindar blása fyrirvaralaust um allar trissur á landinu okkar á þeim tíma og það geta þeir líka í háloftunum. Þú festir sennilega ekki svefn við þær aðstæður en hættan gagnvart flugvélinni er nánast við núllpúnkt.
Mikil ókyrrð er algengari en margur heldur. Hún beinlínis óþægileg flestum enda er rellan þá farin að skoppa til og frá og flestir taka eftir að flugþjónar eru hættir starfsemi og sestir í sæti sín við þær aðstæður. Engar líkur á að njóta bókar eða kvikmyndar við þær aðstæður heldur aðeins vona að flugmennirnir finni leið framhjá sviptivindunum sem allra fyrst. Þrátt fyrir titringinn er vélinni engin hætta búin. Allar nútíma rellur eru hannaðar með mikla ókyrrð í huga og þola slíkt ítrekað auðveldlega. Dæmi um mikla ókyrrð má sjá á myndbandinu hér að neðan. Þar hristist rellan linnulítið í tíu mínútur og engum leið vel. Hættan var þó lítil sem engin.
Ógnvænleg ókyrrð er hins vegar líka til í dæminu og það er við þær aðstæður sem vindar geta gerst það öflugir að nútíma flugvél er í hættu burtséð frá hæfileikum flugmanna. Íslenskt heiti yfir vinda sem valdið geta slíkum viðbjóð er skúraklakkar. Það eru með öðrum öðrum þessi fallegu undarlegu skýjastrókar sem sjást gjarnan að sumarlagi.
Þó fallegir séu frá landi er ekkert fallegt við að lenda í þeim á flugi. Inni í þeim skýjum eru bæði miklir vindar og mjög breytilegir. Nógu öflugir og breytilegir til að geta haft bein og alvarleg áhrif á flugvélaskrokk. Svo alvarleg áhrif að flugmenn fá ekkert við ráðið. Það er enda úr slíkum skýjabeltum sem ofsaveður skapast við tilteknar aðstæður.
Eðli máls samkvæmt reyna engir vitibornir flugmenn að fljúga gegnum slíkt skýjabelti nema neyð reki þá til. Fyrr er flugi hætt eða snúið við.
Hversu öruggt er að fljúga í raun?
Það er móðins hjá flugfélögum og markaðsstofum þeirra að benda á að flugslys á heimsvísu eru afar fátíð og að hættulegra sé að aka bifreið í næstu stórborg en að taka flugið.
Vissulega rétt að flugslys eru sjaldgæf og þeim fer mjög fækkandi ár frá ári. En þegar miðað er við að hættulegra sé að aka bifreið en fljúga er ekki tekið tillit til þess að það eru þúsundfalt fleiri bílar á vegum úti en rellur á flugi. Sá samanburður ekki ýkja gagnlegur.
Verst kannski að engin flugmálayfirvöld neins staðar í veröldinni hafa breytt prófum sínum og rannsóknum á farþegavélum í 30 ár eða svo. Þó hefur sætisrými minnkað nánast um helming frá því að þær viðmiðunarreglur voru settar. Eða hvernig heldurðu að gangi að koma 200 farþegum frá borði á innan við 120 sekúndum í níðþröngum farrýmum nútímans við neyðaraðstæður?